Innlent

Geta loks keypt sér lambakjöt í Gimli

Yfirvöld í Kanada hafa fallist á að leyfa innflutning á íslensku lambakjöti til landsins, að sögn Jóns Gíslasonar, forstjóra Landbúnaðarstofnunar. „Ef íslenskir lambakjötsframleiðendur hafa áhuga á að sækja inn á Kanadamarkað þá geta þeir það,“ segir Jón. Þetta þýðir að Vestur-Íslendingar í Gimli, og annars staðar í Kanada, geta nú loksins keypt sér íslenskt lambakjöt.



„Ég veit að Vestur-Íslendingum þykir íslenskt hangikjöt ómissandi á veisluborðinu þegar þeir halda þorrablót hér úti. Þeir munu því örugglega taka þessu fegins hendi. Ég veit að þeir hafa stundum reynt að smygla hangilæri inn til Kanada frá Íslandi og stundum hefur tollaeftirlitið lagt hald á það. Nú þurfa þeir ekki lengur að hafa áhyggjur af því,“ segir Markús Örn Antonsson, sendiherra Íslands í Kanada.



Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands (SS), segir að fyrirtækið ætli ekki að hefja innflutning á lambakjöti til Kanada þrátt fyrir leyfið. „Ég sé ekki í hendi mér að lambakjötsframleiðendur á Íslandi fari inn á Kanadamarkað því það kjöt sem við höfum til útflutnings hefur eingöngu dugað fyrir markaðina í þeim löndum sem við flytjum inn til í dag,“ segir Steinþór.



Í nýjum búvörusamningi við sauðfjárbændur var ákveðið að fella niður ákvæði um útflutningsskyldu lambakjöts árið 2009. Í dag er kerfið þannig að sauðfjárbændum er skylt að flytja út það lambakjöt sem er framleitt umfram þörfina hér innanlands. Á síðasta ári voru framleidd um 8.000 tonn af lambakjöti á Íslandi og voru um 800 tonn flutt út.



Að sögn Steinþórs er því ekki lag fyrir sauðfjárbændur að eyða peningum í að byggja upp markaðinn í Kanada því óvíst er hvernig útflutningi verður háttað árið 2009. „Hverjum sauðfjárbónda verður þá í sjálfsvald sett hvort hann flytur lambakjötið sitt út. Hins vegar fá þeir lægra verð fyrir kjötið ef þeir flytja það út en hér innanlands og því er óvíst hvort þeir vilja halda því áfram árið 2009,“ segir Steinþór.



Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, tekur í sama streng og Sigþór. „Við munum ekki setja það á oddinn að flytja út lambakjöt til Kanada, en við munum að sjálfsögðu fylgjast vel með markaðnum þar,“ segir Sigmundur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×