Innlent

Kjósendur voru ekki að sýna Framsóknarflokknum reisupassann

Kjósendur voru ekki að senda Framsóknarflokknum þau skilaboð að hann ætti að standa fyrir utan næstu ríkisstjórn. Þetta kom fram í máli Guðna Ágústssonar, varaformanns Framsóknarflokksins, í hádegisviðtali á Stöð 2. Hann segir fyrst og fremst innbyrðis átök og neikvæða umræðu hafa valdið því að Framsóknarflokkurinn hafi fengið slæma kosningu. Hann reiknar með að flokkurinn missi ráðherrastóla haldi núverandi ríkisstjórnarsamstarf áfram.

Guðni Ágústsson sagði útkomu flokksins á höfuðborgarsvæðinu hafa valdið vonbrigðum og að flokkurinn þurfi að endurmeta stöðuna í ljósi niðurstöðu síðustu kosninganna. Hann vill þó ekki meina að kjósendur hafi verið að senda flokknum þau skilaboð að hann ætti að standa fyrir utan næstu ríkisstjórn. Guðni bendir á að ríkisstjórnin hafi engu að síður haldið velli.

Guðni segir að síðasta kjörtímabil hafi verið flokknum erfitt og meðal annars hafi hann þurft að ganga í gegnum innbyrðisátök. Þá hafi mál eins og Íraksmálið og fjölmiðlamálið verið umdeild. Kjósendur hafi að mörgu leyti verið að láta þau mál bitna á flokknum.

Guðni segir alls ekki útilokað að mynda ríkisstjórn með eins manns meirihluta en það kalli á vandaðri vinnubrögð og meiri samstöðu. Hann segir þó æskilegra að ríkisstjórn hafi meirihluta upp á þrjá til fjóra þingmenn.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×