Handbolti

Ársmiðarnir eftirsóttir hjá liði Alfreð Gíslasonar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason hefur verið sigursæll sem þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason hefur verið sigursæll sem þjálfari Kiel. Vísir/Getty
Ársmiðarnir á leiki Kiel í Meistaradeildinni runnu út eins og heitar lummur þegar þeir fóru í sölu í gær en mikill áhugi er á handboltaliði Alfreðs Gíslasonar þessa dagana.

Kiel vann þýska meistaratitilinn fjórða árið í röð á tímabilinu en náði ekki að vinna Meistaradeildina. Kiel vann hana síðast vorið 2012.

Það var örtröð fyrir framan miðasölurnar þegar ársmiðarnir fóru í sölu og alls seldur fimm þúsund slíkir miðar á fyrstu fimm tímunum. Þetta voru bara miðar sem gilda út riðlakeppnina þar sem Kiel mætir MKB Veszprém, Paris Saint-Germain, Celje, Wisla Plock, Zagreb, Besiktas og Flensburg-Handewitt.

Aðeins sigurvegari riðilsins kemst beint í átta liða úrslitin en liðin í öðru til sjötta sæti fara í sextán liða úrslitin.

Miðarnir eru með 20 prósent afslætti frá 4. til 24. júlí og fólkið ætlaði ekki að láta þann afslátt framhjá sér fara. Miðaverðið var frá 75 evrum í ódýrustu sætin upp í 275 evrur sem var verðið á sætunum við völlinn.

Starfsfólk Kiel reyndi að gera biðina léttari með því að bera 30 lítra af fríu kaffi og um 80 lítra af vatni í þá sem biðu eftir því að geta keypt sér ársmiða.

„Þetta er algjörlega ótrúlegt. Þessi rosalegi áhugi sýnir stöðu handboltans hér. Þetta er einstakt fyrir Kiel," sagði Thorsten Storm, framkvæmdastjóri Kiel við handball-world.com.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×