Skoðun

Árshátíð leikjaiðnaðar og sýndarveruleika gengin í garð

Vignir Guðmundsson skrifar
Slush PLAY ráðstefnan verður haldin í annað sinn hér á Íslandi í þessari viku, dagana 28.-29. september í Austurbæ. Búist er við um 350 ráðstefnugestum þetta árið, sem er töluverð fjölgun frá því í fyrra þegar rúmlega 200 ráðstefnugestir komu saman.

Að mínu mati er ráðstefnan algjör lykilviðburður fyrir íslenskan leikjaiðnað. Við fáum hér tækifæri til þess að bjóða á okkar heimavöll vigtandi sérfræðingum, fyrirtækjum, fjárfestum og öðru áhugafólki á sviði leikjaiðnaðar og sýndarveruleika. Icelandic Startups hefur staðið sig frábærlega í að skipuleggja ráðstefnuna í ár og viðburði henni tengda, í samstarfi við fjölmarga samstarfsaðila.

Þrátt fyrir að viðburðurinn fari nú einungis fram í annað sinn, þá laðar hann að sér alþjóðleg fyrirtæki og fjárfestingarsjóði sem eru mörg hver leiðandi á sviði leikjaiðnaðar og sýndarveruleika. Má þar nefna fyrirtækin Unity, Wargaming, King, Valve og Lionsgate og fjárfestingarsjóði hjá Goldman Sachs, Horizons Ventures og Beringer Finance.

Það er í raun ótrúlegt hversu hratt Slush PLAY hefur vaxið sem eftirsóknarverður viðburður á þessu sviði. En hvað gerir það að verkum að svo margir alþjóðlegir lykilaðilar í leikjaiðnaði og sýndarveruleika sækjast eftir því að koma til Íslands til að taka þátt í Slush PLAY?

Svarið við þeirri spurningu er tvískipt. Í fyrsta lagi er það vegna þess hve leiðandi íslensk fyrirtæki hafa verið á vaxtarskeiði sýndarveruleikatækni á heimsvísu. Fyrirtækin CCP, Sólfar og Aldin Dynamics hafa öll hlotið gífurlega góða dóma fyrir sínar upplifanir. Til að mynda er leikurinn Gunjack frá CCP mest selda upplifun í sýndarveruleika frá upphafi.

Í öðru lagi er það vegna þess hversu góða ásýnd Ísland hefur byggt upp síðastliðin ár sem áhugaverður staður til að heimsækja. Afrakstur þess sést bersýnilega í gríðarlegum vexti í ferðaþjónustu síðastliðin ár.

Slush PLAY hefur farið einstaklega vel af stað sem ráðstefna þessi fyrstu ár. Við höfum gullið tækifæri í höndunum til þess að móta Slush PLAY til framtíðar sem árshátíð leikjaiðnaðar og sýndarveruleika á heimsvísu. Ekki bara fyrir íslenskan iðnað. Ávinningurinn af því yrði gífurlegur fyrir íslenskt samfélag og hugverkaiðnað. Til þess að það geti gerst þarf sameiginlegt átak frá sprotasamfélagi, fyrirtækjum, stuðningsaðilum, ráðuneytum og stjórnsýslu. Tökum höndum saman og látum það gerast!




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×