Enski boltinn

Arsenal vann Hull örugglega - myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lukas Podolski skoraði tvö mörk og Aaron Ramsey átti þátt í öllum þremur mörkunum þegar Arsenal vann 3-0 útisigur á Hull í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta og náði um leið fjögurra stiga forskoti í baráttunni við Eveton um fjórða og síðasta sætið inn í Meistaradeildina á næstu leiktíð.

Lukas Podolski skoraði tvö mörk í sigrinum á West Ham United í vikunni og endurtók leikinn í dag. Fjögur af átta deildarmörkum Þjóðverjans á leiktíðinni hafa því komið á síðustu fimm dögum.

Arsenal setti með þessu pressu á Everton sem á leik inni á móti Manchester United nú strax á eftir en lærisveinar Arsene Wenger hafa heldur betur svarað kallinu eftir að Everton náði fjórða sætinu af þeim á dögunum.

Aaron Ramsey er kominn aftur í gang eftir meiðsli og var allt í öllu í liði Arsenal í dag. Ramsey skoraði fyrsta markið á 31. mínútu og lagði síðan upp bæði mörkin fyrir Podolski, fyrst með því að leggja boltann fyrir hann og svo með því að eiga skot sem Podolski fylgdi á eftir.

Arsenal og Hull mætast í bikarúrslitaleiknum á Wembley í næsta mánuði og þar þurfa lærisveinar Steve Bruce í Hull að spila miklu betur ætli þeir sér að eiga möguleika í enska bikarinn.

Fyrsta mark Arsenal í leiknum í dag kom eftir frábæra og dæmigerða Arsenal-sókn þar sem leikmenn Arsenal spiluðu sig í gegnum vörn Hull sem endaði með því að Ramsey skoraði eftir sendingu frá Santi Cazorla.

Lukas Podolski kom Arsenal síðan í 2-0 með laglegu skoti eftir skyndisókn og brjóstsendingu Ramsey í lok fyrri hálfleiksins.

Lukas Podolski gulltryggði síðan sigurinn á 54. mínútu þegar hann skoraði sitt annað mark eftir að Steve Harper varði skot Aaron Ramsey.

Fleiri urðu mörkin en gátu vissulega orðið fleiri ekki síst þegar Olivier Giroud skaut í slá af örstuttu færi eftir markmannsmistök.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×