Enski boltinn

Arsenal hefur ekki efni á því að eyða eins mikið og keppinautarnir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger og Ivan Gazidis.
Arsene Wenger og Ivan Gazidis. Vísir/Getty
Ivan Gazidis, stjórnarformaður Arsenal frá 2009, ber sig ekki alltof vel fjárhagslega í viðtali við bandaríska blaðið New York Times en mikil pressa er á Arsenal-liðinu að styrkja sig fyrir komandi tímabil í ensku úrvalsdeildinni.

„Við höfum ekki efni á því að keppa við hin liðin í eyðslu því þau hafa miklu meiri pening. Við verðum að fara varlega," sagði Ivan Gazidis meðal annars í viðtalinu við New York Times.

Arsenal hefur aðeins gert ein stór kaup í sumar þegar liðið keyptu svissneska landsliðsmiðjumanninn Granit Xhaka frá Borussia Monchengladbach fyrir 35 milljónir punda eða 5,6 milljarðar íslenskra króna.

Ivan Gazidis er ánægður með knattspyrnustjórann Arsene Wenger og gefur honum fullan stuðning. Hann neitar því að það sé vegna fortíðarþrár.

Undir stjórn Arsene Wenger hefur Arsenal endað meðal fjögurra efstu efstu liðanna í ensku úrvalsdeildinni tuttugu tímabil í röð en Arsenal hefur ekki unnið ensku deildina síðan 2004.

Wenger hefur verið knattspyrnustjórinn frá 1996 og eftir sigursæl tímabil í byrjun hefur liðið ekki náð að fylgja því eftir á undanförnum áratug.

Stór ástæða segja sumir er að Wenger er ekki tilbúinn að eyða miklu í leikmenn. Arsenal var sem dæmi eina liðið í fimm bestu deildunum sem keypti ekki útileikmann fyrir síðasta tímabil en einu kaupin voru á markverðinum Petr Cech frá Chelsea.

Arsene Wenger gæti alveg verið búinn að heilaþvo sinn mann miðað við hvernig Ivan Gazidis talaði í viðtalinu.

Þar segir Ivan Gazidis meðal annars frá því að margt annað en peningar sé orðið mikilvægara fyrir liðin í ensku úrvalsdeildinni. Reglur og reglugerðir í ensku úrvalsdeildinni þýða að nú sé mikilvægara fyrir félögin að vera með gott njósnakerfi til að finna leikmenn, hvernig þau búa til góða fótboltamenn, hvernig íþrótta- og þjálfunarfræði þau beita og að þau geri meira af því að nota nota greiningar og sálfræði til að gera leikmenn og liðið betra.

Þetta segir Gazidis að sá framtíðin og Wenger er örugglega alveg sammála. Vandamálið er að liðin í kringum þá í ensku úrvalsdeildinni eru ekki alveg á sama mál og stuðningsfólk Arsenal er ekki sátt með að sjá nýja leikmenn streyma til hinna liðanna. Hin liðin eru tilbúin að styrkja sín lið með fullt af mönnum en Wenger og félagar halda í budduna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×