Handbolti

Aron stoltur: Spes að vinna Skjern

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron hefur náð frábærum árangri með danska liðið Kolding en þrátt fyrir að hafa náð góðum árangri með Kolding og landsliðið er framtíð þjálfarans í óvissu.
Aron hefur náð frábærum árangri með danska liðið Kolding en þrátt fyrir að hafa náð góðum árangri með Kolding og landsliðið er framtíð þjálfarans í óvissu. fréttablaðið/daníel
„Það var alveg frábært að enda þetta svona. Þetta er búinn að vera virkilega góður tími og ekki hægt að enda þetta betur,“ segir Aron Kristjánsson en hann stýrði KIF Kolding til danska meistaratitilsins á sunnudag.

Þetta er annar titill félagsins í röð undir stjórn Arons. Hann var líka að stýra Kolding í síðasta sinn enda var það frágengið fyrir nokkru að hann myndi láta af störfum hjá félaginu eftir tímabilið.

Kolding tapaði seinni úrslitaleiknum gegn Skjern, 21-20, en hafði unnið fyrri leikinn með sex mörkum, 30-24, og var aldrei hætta á öðru í seinni leiknum en að lið Arons myndi klára dæmið.

„Við lentum í smá meiðslum í leiknum en náðum samt að klára þetta örugglega. Vörnin var frábær og Kasper Hvidt öflugur í markinu.“

Þetta var mjög spes

Þetta voru sérstakir úrslitaleikir fyrir Aron enda var hann leikmaður Skjern er það vann sinn fyrsta titil árið 1999. Hann þjálfaði liðið síðan í þrjú ár.

„Þetta var mjög spes enda á ég mikið af vinum í Skjern. Það gaf þessu aðeins aukalega. Er við unnum titilinn með Skjern árið 1999 þá lögðum við einmitt Kolding í úrslitum,“ segir Aron en hann gengur eðlilega stoltur frá borði eftir að hafa unnið frábært starf fyrir Kolding.

„Ég er mjög stoltur og ánægður með það sem ég afrekaði hjá félaginu. Það gekk líka mikið á hjá okkur í vetur vegna meiðsla. Þess vegna varð ég meðal annars að kalla á Ólaf Stefánsson. Breiddin var ekki mikil á álagstímum eins og þegar við vorum að berjast í Meistaradeildinni. Það var samt gott að rísa aftur upp frá því og klára titilinn með stæl.“

Það verða nokkrar breytingar á liðinu milli ára. Aron fer sem og sænska stórskyttan Kim Andersson. Konstantin Igropulo kemur í hans stað. Lasse Boesen er síðan að leggja skóna á hilluna. Gamlir stríðshestar eins og Kasper Hvidt og Lars Jörgensen halda áfram.

Enn í viðræðum við HSÍ

Eins og alþjóð veit er Aron einnig að þjálfa íslenska landsliðið en það er alls óvíst hvort hann heldur áfram með liðið eftir leiki landsliðsins um miðjan mánuðinn. Sérstök staða fyrir nýkrýndan danskan meistara sem gæti staðið uppi atvinnulaus í lok mánaðarins.

„Ég hef verið í viðræðum við HSÍ síðustu vikur en þær viðræður voru lagðar á hilluna meðan úrslitaleikirnir fóru fram í Danmörku,“ segir Aron en hann flaug heim á dögunum til þess að ræða við forráðamenn HSÍ en enginn botn hefur fengist í viðræðurnar það sem af er.

„Það fer væntanlega eitthvað að skýrast í þessu en það er alls ekki útilokað að ég haldi áfram með landsliðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×