Handbolti

Aron skoraði fjögur og Veszprém í úrslit eftir framlengingu | Sjáðu mörkin

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron Pálmarsson og félagar í Veszprém eru komnir í úrslitaleik Meistaradeilarinnar eftir sigur á Kiel í framlengdum leik í dag, en lokatölur urðu 31-28.

Kiel byrjaði betur og komst í 5-2, en þá vöknuðu Ungverjarnir og skoruðu næstu fjögur mörk. Þjóðverjarnir voru svo sterkari undir lok fyrri hálfleiksins og leiddu 15-12 í hálfleik.

Veszprém byrjaði af miklum krafti í síðari hálfleik og þeir skoruðu svo fyrstu fjögur mörkin í síðari hálfleik.

Kiel virtist vera búið að tryggja sér sigurinn þegar þeir voru tveimur mörkum yfir, 25-23, þegar ein og hálf mínúta var eftir.

Sjá einnig:Kielce skellti stjörnuprýddu liði PSG

Ungversku meistararnir gáfust ekki upp og Gasper Marguc jafnaði metin nokkrum sekúndum fyrir leikslok, 25-25, og því þurfti að framlengja.

Í framlengingunni reyndust Veszprém sterkari. Þeir skoruðu þrjú mörk gegn einu marki Kielar í fyrri hálfleiknum og unnu svo að lokum þriggja marka sigur, 31-28.

Marko Vujin var markahæstur hjá Kiel með átta mörk, en Momir Ilic var markahæstur Ungverjana, einnig með átta mörk. Aron Pálmarsson skoraði fjögur mörk.

Aron og félagar mæta því Kielce frá Póllandi í úrslitaleiknum á morgun, en Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í Kiel mæta PSG í leiknum um þriðja sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×