Fótbolti

Aron minntist pabba síns í viðtölum í Noregi og sýndi tattúið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Sigurðarson í leik með Fjölni.
Aron Sigurðarson í leik með Fjölni. Vísir/Vilhelm
Aron Sigurðarson byrjaði ferillinn sinn vel í norsku úrvalsdeildinni í gær þegar hann skoraði jöfnunarmark Tromsö á móti Molde í fyrstu umferð tímabilsins.

Aron var að sjálfsögðu mikið í viðtölum eftir leik og hann talaði þar um föður sinn, Sigurður Hallvarðsson, sem lést úr krabbameini fyrir tveimur árum.

„Faðir minn var mér allt. Hann fór með mig á fyrstu æfinguna og fylgdi mér alla tíð. Ég heiðra hann alltaf eftir að ég skora með því að hugsa hann og setja höndina á brjóstið," sagði Aron við Verdens Gang.

Aron tók sig síðan til, renndi niður íþróttajakkanum sínum og sýndi blaðamanninum húðflúrið sitt sem hann fékk sér til að minnast föður síns. Þar stendur: „Always loved. Never forgotten," eða „Alltaf elskaður, mun aldrei gleymast."

Það hefði heldur ekki verið leiðinlegt fyrir föður Arons að sjá strákinn sinn spila í Þróttaralitunum í gær.  Aron, spilaði alla tíð hér heima með Fjölni en faðir hans var mikill Þróttari.  Búningur Tromsö í gær minnti mikið á Þróttarabúninginn.

Bård Flovik, þjálfari Tromsö, var ánægður með Íslendinginn: „Aron hefur þetta í sér. Hann getur skorað í hverjum leik," sagði Bård Flovik og Ole Gunnar Solskjær talaði líka vel um Aron.

„Hann er góður fótboltamaður. Við höfum líka verið að fylgjast með honum en við erum bara með of marga útlendinga. Hann skoraði í fyrsta A-landsleiknum sínum og hann er markheppinn. Hann er leikmaður sem mun gleðja stuðningsmenn Tromsö mikið á þessu tímabili," sagði Ole Gunnar Solskjær við VG.

Aron Sigurðarson skoraði frábært mark í leiknum og fékk mjög góða dóma fyrir frammistöðu sína. Hann skoraði tvö mörk í síðasta æfingaleiknum fyrir mótið og fylgdi því síðan eftir með góðum leik í gær. Þetta gæti því orðið mjög skemmtilegt sumar fyrir hann í Noregi.

TIL-helten på Aker stadion hedret sin avdøde far. Sigurdarson har også tatovert seg til ære for sin far.

Posted by Tromsø IL on 13. mars 2016

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×