Handbolti

Aron Heiðar: Brá að fá svona stykki á mig

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Ég stóð nú alveg upp aftur, en þetta var þó nokkuð högg,“ segir Aron Heiðar Guðmundsson, leikmaður Gróttu í 1. deild karla í handbolta, sem fékk rosalegt högg í leik gegn KR á föstudaginn.

Þegar lítið var eftir af leiknum kom Aron Heiðar inn á í vesti og ætlaði að gefa boltann á Viggó Kristjánsson og hlaupa svo út af.

Sjá einnig:Fékk rautt spjald fyrir gróft brot | Sjáðu rosalegt högg á Nesinu

Hann komst ekki á leiðarenda því Bjarnfinnur Ragnar Þorkelsson, leikmaður KR, keyrði hann í gólfið með látum og uppskar rautt spjald eins og sjá má í myndbandinu hér að ofan.

„Ég fékk eitthvað helvítis sár á öxlina því ég lenti svo hrikalega illa. Svo fékk ég líka högg á hálsinn,“ segir Aron Heiðar við Vísi.

„Þetta var alveg hörku högg og ég varð smá ringlaður, ég skal viðurkenna það. Mér brá aðallega svo mikið að fá þetta stykki á mig.“

Aron Heiðar er alveg heill eftir brotið. Hann hóf strax aftur æfingar með Gróttuliðinu sem er á hraðleið aftur í Olís-deildina. „Það er allt í góðu hjá mér og ég er klár í slaginn,“ segir hann.

Málið var ekki tekið fyrir hjá aganefnd HSÍ í gær og fær Bjarnfinnur Ragnar því ekki leikbann.

Brotið má sjá eftir 2 mínútur og 20 sekúndur í myndbandinu, en það er fengið af Youtube-síðu handboltavefsíðunnar FimmEinn.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×