Enski boltinn

Aron hafði betur gegn Kára | Charlton vann án Jóa Berg

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta, og félagar hans í Cardiff unnu Kára Árnason, landsliðsmiðvörð, og félaga hans í Rotherham í ensku B-deildinni í fótbolta í kvöld.

Velska liðið átti í engum vandræðum á útivelli gegn Rotherham og vann, 3-1, með mörkum frá Bruno Ecuele Manga, fyrrverandi United-manninum Federico Macheda og Conor McAleny.

Með sigrinum kvaddi Cardiff fallsvæðið, en liðið er nú með 44 stig í 13. sæti deildarinnar, Rotherham er með 37 stig í 21. sæti, fjórum stigum frá falli.

Charlton, lið Jóhanns Bergs Guðmundssonar, er enn á flugi, en það vann Nottingham Forest á heimavelli í kvöld, 2-1. Jóhann Berg var ekki í leikmannahópnum hjá Charlton.

Frederic Bulot skoraði bæði mörk Charlton er búið að vinna fjóra leiki af síðustu fimm eftir að vinna ekki í þrettán leikjum í röð.

Charlton er í tólfta sæti deildarinnar með 45 stig en Nottingham Forest er í níunda sæti með 50 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×