Fótbolti

Aron Elís lokaði tímabilinu með frábæru marki | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Elís skoraði fallegt mark.
Aron Elís skoraði fallegt mark. mynd/aafk.no
Íslendingaliðið Álasund í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta lauk tímabilinu þar í landi í gær með 4-2 útisigri á Sogndal þar sem Aron Elís Þrándarson skoraði frábært mark.

Heimamenn í Sogndal komust í 2-1 á 17. mínútu en Aron Elís jafnaði metin með frábæru skoti fyrir utan teig á 23. mínútu, óverjandi fyrir markvörð heimamanna.

Álasund komst í 3-2 fyrir lok fyrri hálfleiks og gulltryggði sigurinn með fjórða markinu á 76. mínútu en liðið er búið að vera í miklum ham undanfarnar vikur. Það vann sjö af síðustu níu leikjum sínum og tapaði ekki einum þeirra. Það fór úr mikilli fallbaráttu í það að sigla lygnan sjó um miðja deild en Álasund hafnaði á endanum í níunda sæti.

Daníel Leó Grétarsson og Adam Örn Arnarson voru báðir í byrjunarliðinu Álasunds með Aroni Elís en allir voru þeir byrjunarliðsmenn í U21 árs landsliðinu í síðustu undankeppni sem lauk með svekkjandi tapi gegn Úkraínu á Laugardalsvellinum.

Aron Elís skoraði þrjú mörk og lagði upp sex fyrir Álasund á tímabilinu en hann spilaði mest sem vinstri kantmaður. Hann var kallaður inn í A-landsliðið fyrir Emil Hallfreðsson á föstudaginn vegna meiðsla Hafnfirðingsins.

Markið sem Aron Elís skoraði í gær má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×