Handbolti

Aron ekki einn af fimm bestu leikstjórnendum Meistaradeildarinnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron kemur ekki til greina...
Aron kemur ekki til greina... vísir/epa
Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, er tilnefndur sem einn af fimm bestu vinstri hornamönnum tímabilsins í Meistaradeildinni en kosning um lið ársins er hafin.

Guðjón Valur fær mikla samkeppni frá Rússanum Tibur Dibirov, HC Vardar, Uwen Gensheimer, Rhein-Neckar Löwen, Manuel Strlek, Kielce, og Jonas Källman, Pick Szeged. Það eru handboltaáhugamenn um allan heim sem fá að kjósa en hægt er að skila inn kjörseðli sínum með því að smella hér.

Það sem er virkilega áhugavert er að Aron Pálmarsson, leikstjórnandi ungverska stórliðsins Veszprém, eins líklegasta liðsins til að vinna Meistaradeildina, kemur ekki einu sinni til greina í lið ársins. Aron hefur verið einn af bestu leikmönnum Meistaradeildarinnar þetta tímabilið og skorað 48 mörk fyrir utan að leggja upp annað eins fyrir félaga sína.

Veszprém vann ellefu leiki af fjórtán undir stjórn Arons í sóknarleiknum í riðlakeppninni og hafnaði í öðru sæti A-riðils á eftir Paris Saint-Germain. Veszprém er aðeins búið að tapa tveimur leikjum; gegn Kiel og PSG úti en vann bæði lið heima.

Vezprém gerði sér svo lítið fyrir og vann makedónska stórveldið HC Vardar með þriggja marka mun á útivelli í ljónagryfju Vardar, 29-26, í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum.  Aron Pálmarsson fór þar á kostum og skoraði sjö mörk, en hann var kosinn leikmaður umferðarinnar á heimasíðu Meistaradeildarinnar fyrir frammistöðu sína gegn Vardar.

Leikstjórnendurnir sem koma til greina eru þeir Rasmus Lauge, Flensburg, Dean Bombac, Pick Szeged (sem er fallið úr keppni), Andy Smidth, Rhein-Neckar Löwen (sem er fallið úr keppni), og Domagoj Duvnjak, Kiel.

Hér að neðan má sjá brot af frammistöðu Arons gegn Vardar en við minnum á að hér má kjósa Guðjón Val í lið ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×