Fótbolti

Aron Einar um víkingafagnið: „Þetta er bara grjóthart“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Einar Gunnarsson leiðir íslensku þjóðina í víkingaklappinu eftir sigurinn á Englandi.
Aron Einar Gunnarsson leiðir íslensku þjóðina í víkingaklappinu eftir sigurinn á Englandi. vísir/Vilhelm
Víkingaklappið eða víkingaherópið sem íslenskir stuðningsmenn taka nokkrum sinnum í hverjum leik strákanna okkar á EM 2016 hefur vakið mikla athygli.

Ekki vakti minni athygli þegar Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, leiddi leikmennina, stuðningsmennina og íslensku þjóðina í víkingaklappinu eftir leikina gegn Austurríki og sérstaklega gegn Englandi.

Í afslöppuðu og áhugaverðu viðtali við íslenska fjölmiðla á hóteli í Annecy í dag sagðist Aron Einar varla geta lýst því hvernig það hefði verið að standa fyrir framan nokkur þúsund manns eftir sigur á Englandi og leiða íslensku þjóðina í sigurvímu.

„Þetta er náttúrlega bara grjóthart,“ sagði Aron Einar. „Þetta er stolið frá Skotlandi og Silfurskeiðin kemur með þetta inn í Tólfuna. Við erum bara búnir að eigna okkur þetta.“

„Menn eru smeykir við þetta. Þetta sýnir bara hvernig við erum. Þetta er fullkomið fyrir okkur. Að vera þarna fremst og stjórna þessu er grjóthart. Það er eina orðið yfir þetta,“ sagði Aron Einar.

Einstaka erlendir fjölmiðlar hafa líkt þessu við Haka-dans nýjsjálenska landsliðsins í ruðningi. Fyrir leik dansa leikmenn liðsins Haka sem er heróp Máranna, frumbyggja Nýja-Sjálands. Eitthvað svipað með víkingaklappið er ekki að fara að gerast hjá Íslandi.

„Nei, það held ég ekki. Þá erum við komnir í smá rugl,“ sagði Aron Einar Gunnarsson léttur og kátur í dag.

Allt viðtalið má sjá hér að neðan.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×