Fótbolti

Aron Einar segist vera búinn að vera ofan í helli síðan EM lauk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Vísir/Getty
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska fótboltalandsliðsins, er búinn með fríið sitt eftir EM í Frakklandi og er á leiðinni til æfinga í Cardiff eftir helgi.

Aron Einar fær því ekki marga daga frí eftir erfitt Evrópumót þar sem hann gaf allt sitt í fimm leiki íslenska liðsins.

Aron Einar talar um það hafa verið andlega búinn eftir Evrópumótið í viðtali í Morgunblaðinu í dag.

„Maður er í rauninni búinn að vera ofan í helli frá því Evrópumótinu lauk. Ég var andlega búinn eftir mótið en maður fórnar því alveg fyrir þessa velgengni," sagði Aron Einar Gunnarsson í viðtali við Guðmund Hilmarsson á Morgunblaðinu.

„Skrokkurinn er allt í lagi. Það eru pústrar hingað og þangað en ekkert alvarlegt," sagði Aron Einar sem var tæpur fyrir flesta leiki íslenska liðsins á EM í Frakklandi.

Aron Einar er ekki öruggur um að spila með Cardiff á komandi tímabili þótt að hann hefji æfingar með liðinu á mánudaginn.

„Það hafa borist einhver tilboð frá liðum á Englandi og utan þess en ég er ekkert að stressa mig á því. Ég ætlar ekkert að hoppa á fyrsta boð en þetta kemur til með að skýrast á næstunni. Ég fékk ágæta umfjöllun á Evrópumótinu og eðlilegt að einhver áhugi hafi vaknað en ég ætla bara að fara yfir mín mál í rólegheitunum," sagði Aron Einar.

Aron Einar sagði líka frá því að hann hafi fyrst og fremst hugsað um að endurhlaða sig andlega eftir EM í Frakklandi.

„Ég vildi stimpla mig aðeins út úr boltanum eftir EM, fá mitt frí og hlaða andlegu hliðina. Það er mikilvægt svo maður verði ekki leiðir á þessu," sagði Aron Einar í fyrrnefndi viðtali við Guðmund Hilmarsson.

Aron Einar Gunnarsson með fjölskyldu sinni.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×