Enski boltinn

Aron Einar: Ég mun ekki taka hverju sem er

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron í leik með Cardiff.
Aron í leik með Cardiff. vísir/getty
Svo gæti farið að Aron Einar Gunnarsson skipti um félag áður en lokað verður fyrir félagaskipti í Evrópu um mánaðamótin en hann var í gær orðaður við AS Roma á Ítalíu og HSV Hamburg í ítölskum fjölmiðlum.

Aron Einar var hefja sitt fimmta tímabil með Cardiff City en var í minna hlutverki en oft áður á síðustu leiktíð. Hann byrjaði núverandi tímabil á bekknum en hefur spilað síðustu tvo leiki og lagt upp í þeim eitt mark.

„Það er bara gamla góða tuggan. Það er ekkert nýtt í þessu og eins og er hefur ekkert formlegt tilboð borist til Cardiff,“ sagði Aron Einar í samtali við Fréttablaðið í gær.

„Maður hefur hins vegar heyrt af áhuga ýmissa liða víða um Evrópu. Sumt er spennandi og annað ekki. Það kemur vonandi í ljós á næstu 2-3 dögum hvað verður enda stutt í að lokað verður á félagaskipti. Það hafa verið þreifingar í gangi og ég veit ekki hvar ég mun enda.“

Aron Einar var í lykilhlutverki með íslenska landsliðinu á EM í sumar og vakti eins og fleiri athygli með frammistöðu sinni.

„Það hafði líka áhrif að ég spilaði lítið með Cardiff á síðasta tímabili og sjálfsagt hefur það ýtt undir áhuga annarra liða. En það verður bara að koma í ljós hvort að Cardiff þurfi á peningnum að halda sem félagið getur fengið fyrir mig,“ segir Aron Einar enn fremur.

„En eins og er líður mér ágætlega, sérstaklega eftir að hafa spilað síðustu tvo leiki. Ég mun ekki taka hverju sem er. Mér líður vel í Cardiff og ef ég færi þá væri það aðeins til að fara til liðs sem mér þykir spennandi kostur fyrir mig og mína fjölskyldu.“

Aldrei í betra formi en nú

Átta ár eru liðin síðan að Aron Einar kom til Englands frá AZ Alkmaar í Hollandi og á þeim tíma hefur hann spilað sjö tímabil í ensku B-deildinni. Hann neitar því ekki að hann væri mögulega reiðubúinn að prófa eitthvað nýtt.

„Þetta er svakalega erfið deild. Það er oft mikil keyrsla og spilað tvisvar í viku. Ef maður leyfir sér að hugsa of mikið um álagið þá gæti maður orðið þreyttur. Vissulega kæmi það vel til greina að prófa eitthvað nýtt en ég er leikmaður Cardiff eins og er og samningsbundinn í tvö ár í viðbót.“

Aron Einar var tæpur vegna meiðsla á EM í sumar en hefur jafnað sig að fullu. „Þegar ég var heima var ég mikið hjá hnykkjara og kom svo aftur hingað út eftir nokkuð stutt frí. Sumarið var því nokkuð strembið en ég hef náð að æfa vel og hef líklega aldrei verið í betra formi en einmitt núna.“

Cardiff á næst leik gegn Reading á heimavelli á morgun en liðið er sem stendur í fimmtánda sæti ensku B-deildarinnar með fimm stig eftir fjóra leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×