Enski boltinn

Aron Einar á skotskónum | Fjör á Molineux

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson skoraði mark Cardiff City í 1-1 jafntefli við Ipswich Town á Portman Road í ensku B-deildinni í dag.

Þetta var annað mark landsliðsfyrirliðans í vetur en hann skoraði einnig í 1-2 sigri á Nottingham Forest í október.

Cardiff er enn í fallsæti en liðið hefur aðeins unnið fimm af 20 deildarleikjum sínum í vetur.

Það nennti enginn að spila vörn þegar Wolves tók á móti Fulham. Lokatölur 4-4 í ótrúlegum leik.

Jón Daði Böðvarsson kom inn á sem varamaður í liði Úlfanna á 59. mínútu í stöðunni 1-3. Wolves skoraði næstu þrjú mörk leiksins en Floyd Ayité tryggði Fulham stig þegar hann jafnaði metin í 4-4 á fjórðu mínútu í uppbótartíma.

Ragnar Sigurðsson sat allan tímann á varamannabekknum hjá Fulham sem er í 9. sæti deildarinnar. Wolves er í 19. sætinu.

Hörður Björgvin Magnússon var á sínum stað í vörn Bristol City sem laut í lægra haldi fyrir Huddersfield Town, 2-1, á útivelli.

Þetta var fimmta tap Bristol City í síðustu sjö leikjum en liðið er í 13. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×