Fótbolti

Aron Einar: Skil ekki hvernig við fórum að þessu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson fagnar í leikslok.
Aron Einar Gunnarsson fagnar í leikslok. Vísir/EPA
„Þetta hérna,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson og benti á íslenska fánann sem hann var með um herðarnar þegar hann var inntur eftir viðbrögðum sínum við frábærum 2-1 sigri Íslands á Austurríki á Stade de France í dag.

„Fyrir þetta stöndum við, við berjumst fyrir landið okkar,“ bætti Aron við í samtali við Pétur Marteinsson í Sjónvarpi Símans.

Íslenska liðið byrjaði leikinn betur og hélt boltanum vel fram að markinu sem Jón Daði Böðvarsson skoraði á 18. mínútu. Eftir það sóttu Austurríkismenn stíft, og þá sérstaklega í seinni hálfleik, en íslensku strákarnir héldu út.

„Ég skil ekki hvernig við fórum að þessu, það voru nokkrir tæpir fyrir leikinn. Við sýndum þvílíkan karakter,“ sagði Aron sem var ósáttur við markið sem varamaðurinn Alessandro Schöpf skoraði eftir klukkutíma leik.

„Við fengum leiðinlegt mark á okkur. Við vorum í sókn og vorum alltof lengi til baka.“

Þrátt fyrir að hafa legið aftarlega í leiknum leið Aroni ekkert illa.

„Við erum góðir að verjast og þetta er í eðli okkar. Svona líður okkur best,“ sagði fyrirliðinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×