Sport

Aron Einar, Hafþór Júlíus og Víkingaklappið í NFL

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hafþór Júlíus og Aron Einar koma við sögu hjá Minneosta Vikings á sunnudagskvöldið.
Hafþór Júlíus og Aron Einar koma við sögu hjá Minneosta Vikings á sunnudagskvöldið. Samsett mynd/Vísir/Getty
Aron Einar Gunnarsson og Hafþór Júlíus Björnsson verða báðir sérlegir gestir þegar NFL-liðið Minnesota Vikings vígir nýjan leikvang á sunnudagskvöld.

Víkingaklappið, sem íslenska knattspyrnulandsliðið og stuðningsmenn þess gerðu heimsfrægt á EM í Frakklandi í sumar, verður þar að auki í stóru hlutverki þegar US Bank Stadium verður vígður í leik liðsins gegn erkifjendunum í Green Bay Packers.

Forráðamenn félagsins hafa ekki viljað segja hvað standi nákvæmlega til en hafa þó staðfest að Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði Íslands, og Hafþór Júlíus Björnsson sem leikur „Fjallið“ í sjónvarpsþáttaröðinni Game of Thrones, munu færa áhorfendum sérstök skilaboð á myndbandsupptökum.

„Við vonumst til þess að fólk líti á upplifun sína sem ógleymanlega reynslu, hvort sem við töpum leiknum eða vinnum hann,“ sagði Bryan Harper, einn forráðamanna félagsins við bandaríska fjölmiðla.

Áhorfendur munu hita upp með því að taka Víkingaklappið en að sögn Harper höfðu margir stuðningsmenn Minnesota Vikings samband við félagið og vildu taka upp klappið fyrir liðið.

Harper var spurður hvort að hann teldi að félaginu tækist með þessu að endurvekja „töfra“ Íslendinganna á EM. „Við skulum sjá til,“ sagði hann.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×