Handbolti

Aron: Sagði í fyrsta alvöru viðtalinu 15 ára að Barcelona væri draumaklúbburinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Vísir/EPA
Draumur Arons Pálmarssonar er að rætast nú þegar hann hefur skrifað undir fjögurra ára samning við spænsku meistarana í Barcelona.  Þetta kemur fram á heimasíðu Meistaradeildar EHF.

Barcelona náði samkomulagi við ungverska félagið Veszprem um að kaupa upp restina af samningi Arons sem hafði ekki æft með ungverska liðinu frá því að hann mætti ekki á fyrstu æfingu undirbúningstímabilsins og Ungverjarnir fóru í hart.

Bæði félög staðfestu félagsskipti íslenska landsliðsmannsins í dag og á heimasíðu Meistaradeildarinnar er fjallað um þessar risafréttir í heimi handboltans og auk þess að vitnað er í gamalt viðtal við Aron.

„Ég held að ég hafi sagt það í fyrsta alvöru viðtalinu mínu þegar ég var fimmtán ára að draumaklúbburinn væri Barcelona,“ er haft eftir Aroni upp úr gömlu viðtali í umfjöllun ehfcl.com um félagsskipti Arons.



Það þarf ekki að koma mikið á óvart að heimasíða Meistaradeildarinnar hafi áhuga á nýjasta leikmanni Barcelona enda ætlar spænska liðið sér að komast langt í Meistaradeildinni í ár og Aron er auk þess leikmaður sem hefur tvisvar sinnum verið kosinn besti leikmaður úrslitahelgar Meistaradeildarinnar.

Aron skoraði átta mörk á móti Barcelona í leiknum um þriðja sætið í Meistaradeildinni síðasta vor en Veszprem vann þá 34-30 sigur á spænska liðinu og tryggði sér bronsið.  Aron hefur verið fastamaður á úrslitahelgi Meistaradeildarinnar með liðum sínum undanfarin ár en á undan Veszprem spilaði hann með þýska stórliðinu Kiel.

Fyrsti leikur Arons Pálmarssonar með Barcelona í Meistaradeildinni gæti verið á móti króatíska liðinu HC PPD Zagreb 4. nóvember næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×