Fótbolti

Aron: Fannst markvörðurinn eiga að verja þetta skot

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Sigurðarson lætur vaða á markið í Nanning í dag.
Aron Sigurðarson lætur vaða á markið í Nanning í dag. vísir/getty
Aron Sigurðarson, leikmaður Tromsö í Noregi, skoraði annað mark Íslands í 2-0 sigri á Kína á æfingamóti í Nanning í dag en sigurinn kom strákunum okkar í úrslitaleik Kínabikarsins sem fram fer á sunnudaginn.

Aron kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik og skoraði með skoti fyrir utan teig þegar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Strákarnir okkar voru töluvert betri í seinni hálfleik heldur en í þeim fyrri.

Sjá einnig:Heimir: Frábært að fá þetta rétta viðhorf inn á völlinn

„Þeir lágu á okkur í fyrri hálfleik. Mér fannst við eiga erfitt með að spila boltanum en seinni hálfleikurinn var öðruvísi. Þar héldum við boltanum betur og það létti á okkur þegar Kjartan Henry skoraði,“ segir Aron í samtali við Vísi frá Kína.

„Við vorum ekki í eins mikilli bullandi vörn og við vorum framan af eftir að við skoruðum. Þeir hættu að liggja jafnmikið á okkur og þá fóru hlutirnir að opnast fyrir okkur.“

Aron fékk sendingu frá Kjartani Henry á vallarhelmingi Kína þegar hann skoraði markið. Þessi áræðni vængmaður straujaði að teignum og skaut en boltinn fór undir markvörð gestanna sem hefði átt að verja skotið.

„Ég hélt að hann myndi verja þetta,“ viðurkennir Aron. „Ég sá í endursýningu eftir leik að boltinn skoppaði leiðinlega fyrir hann af grasinu en mér fannst hann eiga að verja þetta skot. Hann varði fyrra skotið mitt mjög vel.“

Aron skoraði í sínum fyrsta landsleik gegn Bandaríkjunum í janúar í fyrra. Hann þurfti að bíða í ár eftir næsta landsleik og skoraði þá aftur. Tveir landsleikir - tvö mörk. „Það er vonandi að maður fái bara fleiri mínútur í næsta leik og fleiri landsleiki á árinu. Það er stefnan, en það er auðvitað alltaf gaman að skora,“ segir Aron Sigurðarson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×