Handbolti

Aron: Ég var aldrei stressaður

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hvað ætlið þið að gera í þessu? Norðmenn réðu ekkert við Aron Pálmarsson.
Hvað ætlið þið að gera í þessu? Norðmenn réðu ekkert við Aron Pálmarsson. vísir/valli
„Þetta var frekar erfitt hjá mér í dag. Ég var ekki að hitta og í engum fíling,“ sagði Aron Pálmarsson hæðnislega eftir leikinn ótrúlega gegn Norðmönnum í kvöld þar sem hann fór á kostum.

Aron skoraði átta mörk í leiknum, gaf fimm stoðsendingar og fiskaði tvö víti í öllum regnbogans litum og dró íslenska vagninn með hreint út sagt geggjuðum leik. Ótrúlegur leikmaður sem drengurinn er orðinn.

„Að öllu gríni slepptu þá var ég að fíla mig vel. Mér fannst vera gott flæði í sóknarleiknum. Fannst við spila fallegan sóknarleik. Kannski er það kjaftæði hjá mér en ég upplifði það þannig. Þetta var þolinmóður sóknarleikur og það skilaði þessu,“ segir Aron en íslenska liðið var með yfir 70 prósent skotnýtingu sem er frábært.

Strákarnir fengu svo sannarlega færin til þess að loka leiknum. Gerðu það ekki og fyrir vikið var háspenna, lífshætta í lokin.

„Ég væri ekki að gefa þér viðtal ef við hefðum klúðrað þessu. Ég væri bara trylltur inn í klefa. Ég var samt aldrei stressaður í síðari hálfleik. Var með þá tilfinningu að við myndum vinna þetta. Við hefðum vissulega mátt vera skynsamari manni fleiri en við finnum út úr því. Það hefur aldrei verið vesen.“

Aron segir að liðið fái byr í seglin með svona dramatískum sigri sem endaði í samsöng með áhorfendum líkt og á EM í körfubolta.

„Það var eins og við hefðum verið Evrópumeistarar að vinna Noreg,“ sagði Aron léttur en hann var þakklátur fyrir stuðninginn í dag.

„Þetta var geggjað. Við Íslendingar erum einstök þjóð og gaman að sjá allt þetta fólk sem er komið. Við kunnum svo sannarlega að meta það og finnum vel fyrir stuðningnum. Maður er aldrei stoltari en á svona stundum,“ segir Aron en er þessi frammistaða það sem koma skal?

„Ég er að fá mín tækifæri út af góðum sóknarleik. Ég vona að það verði framhald á þessu. Mér líður vel og ég mun nýta þau tækifæri sem ég fæ.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×