Handbolti

Aron: Ég er ekki búinn að lofa Kiel neinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron er hér í leiknum gegn Barcelona um helgina.
Aron er hér í leiknum gegn Barcelona um helgina. fréttablaðið/epa
Tímabilið hefur ekki farið nógu vel af stað hjá liði Arons Pálmarssonar, Veszprém, í Meistaradeildinni. Liðið tapaði fyrir Barcelona, 26-23, um helgina og er í fjórða sæti A-riðils með sex stig eftir fimm leiki.

„Ef ég tala fyrir sjálfan mig þá er ég ekki sáttur. Mér finnst þetta lélegt miðað við liðið sem við erum með,“ segir Aron en hann var þá nýkominn heim til Ungverjalands eftir ferðalagið til Barcelona.

Bara hugsað um Meistaradeildina

Aron segist hafa spilað svona helming leikja Veszprém í deildinni heima en í ljósi yfirburða Veszprém í ungversku deildinni þá getur liðið hvílt lykilmenn eins og Aron er félaginu nánast hentar.

„Það er bara verið að hugsa um Meistaradeildina. Ég spila alltaf gegn Szeged og svo eru kannski tvö önnur lið sem við erum aldrei að fara að tapa fyrir en eru samt allt í lagi. Það þarf aðeins að hafa fyrir þeim leikjum. Þá spila ég kannski í svona hálftíma. Það er helvíti fínt,“ segir Aron sem var oft plagaður af meiðslum í Þýskalandi. Þá var enginn tími til að jafna sig í sterkri deild.

„Skrokkurinn á mér er mjög góður. Ég sleit liðband í litla putta á skothendinni í upphafi vetrar. Þá var ég frá í fjórar vikur en missti enga leiki í Meistaradeildinni. Nú finn ég ekkert fyrir hnjánum sem voru oft að plaga mig áður. Ég var eiginlega aldrei 100 prósent í Þýskalandi. Ég hef farið í tvær hnéaðgerðir og maður fékk aldrei tíma til að jafna sig almennilega og álagið var rosalega mikið. Ég var svona 90 prósent heill þegar best lét.“

Stundum bannað að æfa

Þó svo álagið hafi verið mikið í Þýskalandi þá er Aron feginn að hafa farið í gegnum þann harða skóla áður en hann fór til Ungverjalands þar sem honum er oft nánast pakkað inn í bómull.

„Mér hefur stundum verið bannað að æfa hérna. Það kemur alltaf Íslendingurinn upp í manni að maður sé aldrei þreyttur og svona. Ég hef mætt á æfingu og mér hefur verið skipað að fara bara á hjólið þegar ég ætlaði að æfa. Þá hef ég viljað lyfta en ekki mátt lyfta of mikið. Það er smá munur að fara í þetta eftir að hafa verið hjá Alfreð. Ég er mjög ánægður að hafa byrjað hjá Alfreð því annars myndi ég bara æfa tvisvar-þrisvar í viku. Það er gott að hafa tekið skólann hjá Alfreð því allt annað er svo bara rólegheit,“ segir Aron léttur og hlær.

Aron lætur vaða á markið í leik í Meistaradeildinni í vetur.vísir/epa
Þegar Aron spilaði við Kiel í Meistaradeildinni á dögunum kom upp úr kafinu að hann væri búinn að fá samningstilboð frá Kiel.

„Framkvæmdastjóri Kiel átti þá frábæru hugmynd að henda þessum upplýsingum í staðarblaðið í Kiel degi fyrir leik. Sagði að ég væri kominn með tilboð frá þeim og nú væri þetta bara í mínum höndum. Það var fallega gert af honum,“ segir Aron og honum var augljóslega ekki skemmt.

„Það var búin að vera mikil leynd yfir þessu. Ég er því augljóslega með tilboð frá þeim. Ég hef samt ekki skrifað undir neitt eða lofað neinu. Það er heldur ekki kominn neinn tími á þennan samning. Auðvitað er samt ánægjulegt að þeir vilji fá mig aftur.“

Ræður þessu ekki sjálfur

Málið er heldur ekki svo einfalt að Aron geti farið aftur til Kiel næsta sumar. Hann er með samning við Veszprém fram á sumar 2018 og Kiel yrði því að kaupa hann. Þess utan vill Veszprém alls ekki missa leikmanninn frábæra.

„Eftir leikinn gegn Kiel fer ég í viðtal við staðarblaðið og segi að ef eitthvert lið vilji kaupa mig næsta sumar þá sé það ekki undir mér komið hvort ég fari. Það þurfi að fara í gegnum félagið. Þá var skrifað að ef eitthvert lið vildi kaupa mig þá væri ég klár. Alveg frábært hjá þeim. Svo vill Veszprém framlengja við mig og þess utan eru óformlegar fyrirspurnir frá öðrum félögum. Auðvitað er ég í frábærri stöðu og líður vel með það.“

Eins og Aron segir þá verður Veszprém að selja hann ef hann á að fara næsta sumar.

„Ég er ekki búinn að ákveða mig og ég mun í seinasta lagi taka ákvörðun næsta sumar um hvað ég vil gera. Sú ákvörðun verður ekki auðveld. Mér líður vel í Ungverjalandi og hér er allt til alls. Eins og staðan er í dag er ég mjög sáttur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×