Fótbolti

Aron: Ég elska þessa borg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Aron Jóhannsson var á skotskónum þegar að Bandaríkin tapaði fyrir Danmörku, 3-2, í vináttulandsleik í Árósum í gær.

Aron hóf atvinnumannaferilinn hjá AGF í Danmörku og lék í gær sinn fyrsta leik á vellinum síðan hann fór frá félaginu til AZ Alkmaar í Hollandi fyrir tveimur árum.

„Þetta var erfiður leikur fyrir okkur. Danmörk spilaði virkilega vel en þegar við komumst 2-1 yfir sá ég ekki fyrir mér að við myndum tapa leiknum,“ sagði Aron sem skoraði síðara mark sinna manna eftir sendingu Jozy Altidore.

„En því miður náði Nicklas Bendtner að jafna og skoraði svo frábært sigurmark. Það var synd fyrir okkur að tapa þessum leik og ég tel að jafntefli hefði verði sanngjörn úrslit.“

Bendtner skoraði öll þrjú mörk danska liðsins í gær og var hampað mjög í dönskum fjölmiðlum. En Aron var ánægður með að fá tækifæri til að spila aftur í Árósum.

„Það var frábært að koma til baka. Ég elska þessa borg ég vona að ég komi einhvern tímann aftur,“ sagði hann við danska fjölmiðla eftir leikinn í gær.

„Ég tók eftir stuðninginum sem ég fékk á vellinum og ég er stoltur af því að stuðningsmennirnir muni enn þá eftir már. En því miður var markið mitt ekki nóg til að vinna leikinn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×