Handbolti

Arnór Þór markahæstur í gríðarlega mikilvægum sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór Þór og félagar eru þremur stigum frá fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir.
Arnór Þór og félagar eru þremur stigum frá fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir. vísir/getty
Arnór Þór Gunnarsson skoraði sjö mörk þegar Bergischer vann gríðarlega mikilvægan sigur á Gummersbach, 21-26, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.

Með sigrinum komst Bergischer upp í 13. sæti deildarinnar. Liðið er nú þremur stigum frá fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir.

Fimm af sjö mörkum Arnórs Þórs í leiknum í dag komu af vítalínunni. Hann var markahæstur á vellinum. Björgvin Páll Gústavsson átti fínan leik í marki Bergischer og varði 12 skot.

Staða Rúnar Sigtryggssonar og lærisveina hans í Balingen-Weilstetten er orðin erfið eftir 29-36 tap fyrir Göppingen á heimavelli.

Balingen er í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar, einu stigi frá öruggu sæti. Balingen á hins vegar bara tvo leiki eftir og þeir eru gegn Flensburg og Kiel, tveimur af þremur efstu liðum deildarinnar.

Bjarki Már Elísson skoraði sex mörk fyrir Füchse Berlin sem vann tveggja marka sigur á Stuttgart, 27-29.

Berlínarrefirnir eru í 4. sæti deildarinnar og í harðri keppni við Kiel um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×