Handbolti

Arnór Þór: Erum að mæta heimsklassaleikmönnum

Arnar Björnsson skrifar
Hornamaðurinn knái Arnór Þór Gunnarsson verður á sínum stað í horninu í kvöld en hvernig ætlar svona lágvaxinn maður að stríða stóru Spánverjunum?

„Bara að nota alla sína krafta og gera allt sem maður getur það er það eina sem ég get gert,“ segir Akureyringurinn léttur en hann er með brosmildari íþróttamönnum sem maður rekst á. Hann segir það mikla tillökkun að mæta Spánverjum í fyrsta leiknum á HM í kvöld.  

„Þetta er frábært lið sem við erum að fara að spila á móti. Heimsklassaleikmenn í hverri stöðu og gaman að byrja HM. Það er frábær tilfinning.“

Þeir bræður Arnór Þór og Aron Einar fyrirliði karlalandsliðsins í fótbolta koma að norðan og eru skýrmæltir.  

„Það er eitt og hálft ár á milli okkar þannig að við erum bara eins og tvíburar og við hugsum þannig séð eins.“  

Arnór Þór fylgdist með karlalandsliðinu í fótbolta í Frakklandi og hann veit því nákvæmlega hvernig honum leið á meðan á Evrópumótinu stóð.  

„Ég var þar líka, horfði á tvo leiki og komst í þá stemningu þar og vonandi verður stemningin hér líka.  Nú verður maður bara að taka af skarið með handboltalandsliðinu.“  

Ertu eitthvað í sambandi við bróður þinn í aðdraganda HM?  

„Já, hann var að senda mér skilaboð áðan og spurði hvernig gengi. Við erum klárir í þetta sagði ég. Við reynum okkar besta í kvöld,“ sagði hornamaðurinn knái Arnór Þór Gunnarsson.

Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×