Fótbolti

Arnór Sveinn: Vorum allir farnir í háttinn fyrir tíu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Arnór Sveinn Aðalsteinsson.
Arnór Sveinn Aðalsteinsson. vísir/andri marinó
„Fyrstu viðbrögð eru svo sem að þetta séu tvö stig töpuð en við tökum þetta stig samt klárlega,“ sagði fyrirliðinn Arnór Sveinn Aðalsteinsson eftir markalaust jafntefli Breiðabliks og Vals á Kópavogsvelli í kvöld.

Leikurinn var mikill baráttuleikur og hálfdaufur framan af. Fyrsta klukkutímann var fátt um færi og fína drætti. Hins vegar hresstist upp á leikmenn eftir því sem leið á og síðustu mínúturnar voru nokkuð hressar.

„Ég fann alveg það sama og þú að það var eins og það vantaði smá stemningu í leikmenn í upphafi. Ég kann enga skýringu á því en þannig var það.“

Oft á tíðum er það svo að þó áhorfendur hafi ekkert séð við leikina eru þjálfarar og leikmenn hæstánægðir með niðurstöðuna. Arnór segir að þetta gæti hafa verið einn af þeim leikjum.

„Sumir leikir eru oft smá skák. Menn loka svæðum vel og eru að þreifa svolítið á hvor öðrum. Þetta var mikil barátta og í dag mættust tvö góð lið með góða einstaklinga. Þetta var einfaldlega jafnbaráttuleikur en mér fannst við hefðum getað tekið hann. Við hefðum átt að skapa smá meira.“

Aðspurður segir Arnór að það sé ekki séns að skrifa slappleikann í upphafi á þreytu vegna kosningasjónvarps í tengslum við Brexit. „Blessaður vertu. Við erum með svo agaðan hóp að það hafa allir farið í háttinn fyrir klukkan tíu undanfarna daga,“ segir fyrirliðinn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×