Fótbolti

Arnór Ingvi og félagar skutust upp í toppsætið með sigri

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Arnór hefur verið öflugur í liði Norrköping á þessu tímabili.
Arnór hefur verið öflugur í liði Norrköping á þessu tímabili. Vísir/Getty
Arnór Ingvi Traustason og félagar í Norrköping skutust upp í efsta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 3-1 sigri á Hacken í dag en sigurinn þýðir að Norrköping er með tveggja stiga forskot á Göteborg þegar þrjár umferðir eru eftir.

Eftir að hafa horft upp á Göteborg ná aðeins jafntefli gegn Halmstad í dag gátu Arnór Ingvi og félagar náð toppsætinu þegar þrjár umferðir eru eftir.

Emir Kujovic kom Norrköping í 2-0 með tveimur mörkum á fimm mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks en Hacken tókst að minnka muninn tíu mínútum síðar með marki frá Paulinho.

Alhaji Kamara tókst hinsvegar að bæta við marki fyrir Norrköping þegar korter var til leiksloka og tryggja sigurinn en Norrköping hefur nú unnið sjö leiki í röð í sænsku úrvalsdeildinni.

Þá héldu Haukur Heiðar Hauksson og félagar í AIK lífi í toppbaráttunni með 2-1 sigri á Kára Árnasyni og félögum í Malmö. AIK er þremur stigum á eftir Norrköping þegar þrjár umferðir eru eftir.

Haukur Heiðar og Kári léku báðir allar 90. mínútur leiksins í dag en Stefan Ishizaki tryggði AIK sigurinn eftir að Malmö hafði jafnað metin undir lok fyrri hálfleiks.

Úrslit dagsins:

Norrköping 3-1 Hacken

AIK 2-1 Malmö




Fleiri fréttir

Sjá meira


×