Fótbolti

Arnór Ingvi mikilvægur í endurkomu Rapid Vín á Ítalíu | Artiz Aduriz skoraði fimm mörk gegn Genk

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór Ingvi í leiknum í kvöld.
Arnór Ingvi í leiknum í kvöld. vísir/getty
Arnór Ingvi Traustason átti þátt í jöfnunarmarki Rapid Vín gegn ítalska liðinu Sassuolo á útivelli í Evrópudeildinni í kvöld. Lokatölur 2-2.

Rapid Vín var 2-0 undir í hálfleik en náði að knýja fram jafntefli með tveimur mörkum á síðustu fjórum mínútum leiksins.

Gregoire Defrel og Antonino Ragusa skoruðu mörk Sassoulo í fyrri hálfleik en Matej Jelic minnkaði muninn í 2-1 fjórum mínútum fyrir leikslok.

Á lokamínútunni jafnaði Giorgi Kvilitaia svo metin þegar hann fylgdi eftir skoti Arnórs Ingva sem Andrea Consigli, markvörður Sassoulo, varði.

Í hinum leik F-riðils vann Athletic Bilbao 5-3 sigur á Genk. Artiz Aduriz gerði sér lítið fyrir og skoraði öll fimm mörk Bilbæinga í leiknum. Þrjú þeirra komu úr vítaspyrnum.

F-riðilinn er gríðarlega jafn og spennandi. Genk og Athletic Bilbao eru með sex stig í tveimur efstu sætunum en Sassoulo og Rapid Vín eru jöfn með fimm stig í 3. og 4. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×