Fótbolti

Arnór Ingvi: Ég læt verkin tala

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Njarðvíkingurinn Arnór Ingvi Traustason hefur ekki miklar áhyggjur af því að meiðsli sem hann varð fyrir í leik með Norrköping í Svíþjóð fyrr í mánuðinum muni há honum í aðdraganda EM í Frakklandi.

„Ég er búinn að fara vel yfir þetta með læknum og sjúkraþjálfurum og er að fara að láta reyna á þetta núna. Þetta verður vonandi allt í góðu lagi,“ sagði hann fyrir æfingu íslenska liðsins á Bislett-leikvanginum í Ósló í dag.

Arnór segir að það hafi verið stór stund fyrir sig þegar hann var valinn í lokahóp Íslands fyrir EM en þessi 23 ára miðjumaður náði að stimpla sig inn í landsliðið með alls þremur mörkum í sex fyrstu landsleikjum sínum.

„Það var mjög svo gleðilegt. Ég var búinn að fylgjast spenntur með en reyndi að hugsa lítið um þetta. Það var svo afar gaman að fá þessar fréttir.“

Arnór Ingvi var svo í millitíðinni seldur til Rapíd Vínar í Austurríki fyrir metfé, tæpar 300 milljónir króna, en hann segist ekki óttast þær væntingar sem fylgja slíkum verðmiða.

„Fyrir mér eru þetta bara tölur, ég læt verkin tala.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×