Handbolti

Arnór: Skrokkurinn er frábær

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnór á ferðinni í leiknum í gær.
Arnór á ferðinni í leiknum í gær. vísir/afp
Arnór Atlason er ekki týpan sem kvartar mikið og sagðist vera fínn í skrokknum eftir leikinn gegn Spánverjum.

„Skrokkurinn er frábær,“ sagði Arnór og glotti við en hann var að glíma við meiðsli í aðdraganda mótsins en náði sér nógu góðum til þess að koma með liðinu á enn eitt stórmótið.

„Ég verð hérna svo lengi sem ég er nógu góður. Ef ég verð ekki nógu heill þá er ég farinn heim. Ég er því bara flottur. Ég hef oft verið verri.“

Arnór var eins og flestir mjög ánægður með fyrri hálfleikinn í gær og á hann vill hann byggja.

„Við spiluðum betur en heimsklassalið í 40 mínútur og það er eitthvað til að vinna með,“ segir Arnór en sprækt lið Slóvena bíður íslenska liðsins á morgun.

„Við verðum að lengja góða kaflann. Nei, ég ætla annars ekki að tala um góða kaflann,“ sagði Arnór og hló við. „Við verðum að lengja aðeins það sem við gerðum í fyrri hálfleik gegn Spáni. Það var gott fyrir hausinn að sjá að við getum spilað svona vel.

„Það er nóg eftir af þessari riðlakeppni og sigur á morgun þýðir ekki að það sé eitthvað í húsi. Ég vil að við höldum áfram að bæta okkur.“

Akureyringurinn er búinn að vera lengi í baráttunni og spilað með mörgum leikmönnum í landsliðinu. Hvernig er spila með nýju guttunum?

„Það er frábært. Þetta eru frábærir handboltamenn sem eiga framtíðina fyrir sér. Þetta eru ferskir strákar sem eru ekki hérna af því þeir eru efnilegir heldur að þeir eru góðir í handbolta.“

Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×