Handbolti

Árni Steinn samdi við SönderjyskE til tveggja ára

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Árni Steinn varð Íslandsmeistari með Haukum.
Árni Steinn varð Íslandsmeistari með Haukum. vísir/stefán
Árni Steinn Steinþórsson, leikmaður Hauka í Olís-deild karla í handbolta, er genginn í raðir danska úrvalsdeildarliðsins SönderjyskE.

Frá því var greint á dögunum að Haukar væru búnir að taka tilboði danska félagsins í skyttuna og nú er Árni búinn að skrifa undir tveggja ára samning.

Frá þessu er greint á heimasíðu SönderjyskE, en þetta er í fyrsta skipti sem Árni Steinn spilar í atvinnumennsku.

„Ég er mjög spenntur og þetta er félag sem mætir mínum metnaði. Það er spennandi að spila fyrir Morten Henriksen og með svona góðum leikmönnum. Ég vona að ég geti átt góð ár með liðinu,“ segir Árni Steinn á heimasíðu SönderjyskE.

Árni Steinn varð Íslandsmeistari með Haukum í ár, en hann átti erfitt uppdráttar í deildarkeppninni og sprakk svo út í úrslitakeppninni.

Hann hefur verið einn albesti leikmaður úrvalsdeildarinnar undanfarin ár og farið þrjú ár í röð í úrslitaeinvígið með Haukum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×