Innlent

Árni Páll: Stjórnarandstöðunni ber siðferðileg skylda til að reyna myndun stjórnar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason. vísir/gva
„Ég er alveg til í að setjast yfir það, ef menn hafa áhuga á, að búa til sameiginlega málefnaskrá fyrir næstu kosningar en ég tel að það sé óþarfi að flækja málið of mikið. Frá hálfu Samfylkingar liggur það alveg skýrt fyrir að ef stjórnarandstöðuflokkarnir ná meirihluta þá teljum við okkur skuldbundin til að mynda meirihlutastjórn með þeim flokkum,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í viðtali við Sigurjón M. Egilsson í þætti hans, Sprengisandi, nú í morgun.

Sigurjón hafði spurt Árna hvort til greina kæmi að núverandi stjórnarandstöðuflokkar myndu sameinast og hvort Árni hefði áhuga á að taka þátt í því. Svar Árna var á þá leið að það þyrfti að meta hvort grundvöllur væri fyrir slíku samstarfi en hann teldi mikilvægt að á Íslandi væri til flokkur jafnaðarmanna og að hann vildi vera í þeim flokki.

„Ég er til í að vinna með öðrum umbótasinnuðum öflum en mér þykir mikilvægast, við þessar aðstæður, að það liggi fyrir að ef stjórnarandstaðan vinnur meirihluta þá ber henni siðferðileg skylda til að reyna myndun meirihlutastjórnar,“ sagði Árni Páll.

Hann benti á að stjórnarandstaðan nú hefði verið mjög einhuga í öllum helstu átakamálum og lagt fram sameiginlegar breytingatillögur við fjárlagafrumvörp síðustu tveggja ára. Hún hafi einnig barist fyrir því að þjóðin fengi að ráða framtíðinni varðandi aðild að Evrópusambandinu og að þjóðin fengi að koma að borðinu varðandi nýja stjórnarskrá eða breytingar á þeirri eldri. Einnig hafi flokkarnir reynt að verja rammaáætlun og koma í veg fyrir að „útgerðin fái gefins makrílkvóta“.

„Við í Samfylkingunni höfum lagt meiri áherslu á breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og stjórnarskránni en flestir aðrir flokkar þó við séum sammála Pírötum að stórum hluta þar. En önnur málefni eru einnig afar mikilvæg og má þar strax nefna úrbætur í húsnæðismálum og nýtt lífeyrissjóða- og almannatryggingakerfi.“

„Það hvort það sé grundvöllur fyrir sameiningu er í raun allt önnur spurning en Samfylkingin er tilbúin til samstarfs náist meirihluti. Það þyrfti sambærilega yfirlýsingu annarra stjórnarandstöðuflokka og ég á ekki von á því að annað komi upp á daginn,“ sagði Árni Páll.

Hlusta má á þáttinn í heild sinni inn á útvarpsvef Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×