Fótbolti

Arnar Þór kominn aftur til Lokeren

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Þór stýrði aðalliði Cercle Brugge í um hálft ár.
Arnar Þór stýrði aðalliði Cercle Brugge í um hálft ár. mynd/facebook-síða cercle brugge
Lokeren hefur ráðið Arnar Þór Viðarsson í starf þjálfara varaliðs félagsins. Þetta kemur fram á mbl.is.

Arnar, sem er uppalinn hjá FH í Hafnarfirði, er öllum hnútum kunnugur hjá Lokeren en hann var á mála hjá belgíska félaginu í tæpan áratug (1997-2006) og lék 235 leiki með því.

Hjá Lokeren hittir Arnar fyrir Sverri Inga Ingason, sem gekk til liðs við félagið í byrjun febrúar á þessu ári. Sverrir lék 14 deildarleiki með Lokeren á síðasta tímabili.

Arnari var sagt upp störfum sem þjálfara Cercle Brugge í mars en hann stýrði liðinu í um hálft ár. Hann var áður aðstoðarþjálfari liðsins og þar áður leikmaður þess.

Sjá einnig: Grátlegt tap var banabiti Arnars Þórs hjá Cercle.

Arnar lék 52 landsleiki fyrir Ísland á árunum 1998-2007.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×