Fótbolti

Arnar tekur tímabundið við Lokeren | Rúnar á leiðinni?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson.
Arnar Þór Viðarsson. Vísir/Getty
Íslendingaliðið Lokeren í Belgíu hefur rekið þjálfara sinn Georges Leekens og mun Arnar Þór Viðarsson taka við starfi hans tímabundið.

Landsliðsmennirnir Ari Freyr Skúlason og Sverrir Ingi Ingason spila með belgíska félaginu og þeir fá nú íslenskan þjálfara.

Lokeren tapaði þriðja leiknum í röð í gærkvöldi og er í tólfta sæti af sextán liðum eftir 12 umferðir. Liðið hefur aðeins náð í tíu stig af 36 mögulegum.

Arnar Þór Viðarsson hefur verið varaliðsþjálfari hjá Lokeren en hann hefur verið hjá félaginu í mörg ár. Belgíska liðið tilkynnti það í morgun að Arnar Þór mun stýra liðinu á meðan leitin af nýjum þjálfara stendur yfir.

Rúnar Kristinsson á að baki frábæran tíma sem leikmaður hjá Lokeren og hann hefur oftar en ekki verið orðaður við endurkomu til félagsins.

Rúnar missti starfið sitt hjá Lilleström í haust og er því laus. Það verður því að teljast líklegt að Rúnar sé einn af þeim sem komi til greina sem nýr þjálfari Lokeren.

Georges Leekens er 67 ára gamall og var búinn að stýra Lokeren frá því í október árið 2015. Leekens tók þá við af Bob Peeters sem entist bara nokkra mánuði í starfi.

Lokeren endaði bara í 11. sæti á fyrsta tímabilinu undir stjórn Leekens og eftir aðeins þrjá sigra í fyrstu tólf leikjum þessa tímabils voru dagar hans taldir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×