Íslenski boltinn

Arnar ósáttur við bannið: Léleg vinnubrögð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks.
Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks. Vísir
Arnar Grétarsson var í gær dæmdur í tveggja leikja bann fyrir brottvísunina sem hann fékk í leik Breiðabliks og Fjölnis í Pepsi-deild karla um helgina. Hann segir ljóst að Breiðablik mun svara banninu og leitast við að fá dómnum breytt.

Arnar, sem er þjálfari Blika, byrjar því næstu leiktíð í tveggja leikja banni sem og Jonathan Glenn, sóknarmaður, sem fékk að líta beint rautt spjald í leiknum.

Arnar brást illa við rauða spjaldinu sem Glenn fékk og viðurkennir að hafa sagt hluti sem hann hefði ekki átt að segja og farið yfir strikið.

„Þetta er leikur tilfinninga,“ sagði hann í viðtali við Fótbolti.net. „Ég hef hegðað mér tiltölulega vel í sumar en þarna gerist ákveðinn hlutur,“ og vísaði til atviksins hjá Glenn sem sagði í viðtali við Vísi efir leikinn að Jonatan Neftali, varnarmaður Fjölnis, hefði togað í eyrað á sér.

Arnar sagði að Blikar væru búnir að kvarta áður yfir framgöngu Neftali en að þetta atvik hafi fyllt mælinn. Arnar segir að Glenn hafi átt að fá rautt fyrir að slá til Neftali en að Fjölnismaðurinn hefði líka átt að fara út af velli.

„Þegar þetta atvik gerðist missti ég mig. Ég sagði einhverja hluti sem ég hefði ekki átt að segja, svo sneri ég mér við og þá ákvað Guðmundur Ársæll að gefa mér rautt.“

„Að þetta skuli vera tveggja leikja bann er eitthvað sem ég skil ekki og þetta finnst mér léleg vinnubrögð án þess að ég ætli að réttlæta það sem ég gerði. Samræmið er bara ekkert.“

„Dómarar þurfa að geta bitið í tunguna á sér. Það væri búið að henda öllum út af í enska boltanum miðað við þetta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×