Handbolti

Arnar Freyr með hundrað prósent nýtingu í sigri meistaranna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Freyr Arnarsson er að spila mjög vel.
Arnar Freyr Arnarsson er að spila mjög vel. mynd/ifk kristianstad
Íslendingaliðið IFK Kristianstad vann þriggja marka útisigur á Ricoh HK, 26-23, í sjöundu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í kvöld.

Sænsku meistararnir lyftu sér upp í þriðja sæti deildarinnar með sigrinum en þeir eru með tólf stig af fjórtán mögulegum líkt og Lugi og Alingsås en slakari markatölu.

Arnar Freyr Arnarsson, sem var valinn í A-landsliðið í vikunni, heldur áfram að spila frábærlega í sínu fyrsta tímabili með Kristianstad. Línumaðurinn öflugi skoraði fimm mörk úr fimm skotum í kvöld.

Gunnar Steinn Jónsson skoraði þrjú mörk úr fimm skotum en Ólafur Guðmundsson hafði hægt um sig og klúðraði eina skotinu sem hann tók á markið.

Örn Ingi Bjarkason átti ekki skot á markið fyrir Hammarby sem fékk vænan skell, 25-14, á útivelli gegn Redbergslid. Örn Ingi og félagar skoruðu aðeins sex mörk í fyrri hálfleik.

Hammarby er í næst neðsta sæti með aðeins tvö stig eftir átta umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×