Innlent

Armenar áhugasamir um íslenska krimma

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Uppselt var þegar Ragnar Jónasson og Yrsa Sigurðardóttir ræddu íslenskar glæpasögur, einkum sín eigin verk, við breska lesendur.
Uppselt var þegar Ragnar Jónasson og Yrsa Sigurðardóttir ræddu íslenskar glæpasögur, einkum sín eigin verk, við breska lesendur.
„Fyrir okkur er mikill heiður að vera boðið að vera með viðburð í þessari búð. Þetta er þar sem allir vilja vera með bækurnar sínar í sölu og svo er mikill heiður að þeir vilji setja upp þennan atburð sérstaklega fyrir okkur,“ segir Ragnar Jónasson rithöfundur.

Hann og Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur lögðu leið sína til Lundúna í liðinni viku. Þar áttu þau samtal við fullan sal af gestum um íslenskar glæpasögur og sín eigin ritverk í bókabúð Waterstones-keðjunnar á Piccadilly í London, sem er ein stærsta bókabúð í heiminum.

Ragnar hefur samið um útgáfu á bókum sinum í ellefu löndum og segir Ragnar að þeirra mest framandi sé ef til vill Armenía. „Það var einhver maður sem vildi hafa samband við mig og hann virtist hafa mikinn áhuga á íslenskum glæpasögum og hafði gefið út áður Arnald og Yrsu, að ég held. Þetta er sennilegast óvenjulegasta landið og mest framandi landið,“ segir Ragnar. Hann segir þó að stærsti markaðurinn í ár sé Frakklandsmarkaðurinn. Þar hefur bók hans, Snjóblinda, verið gefin út í 21 þúsund eintökum og segir Ragnar að viðtökurnar hafi verið mjög góðar.

Um leið og Ragnar var úti til að hitta fólk í bókabúð Waterstones hitti hann fulltrúa sjónvarpsmyndaframleiðendanna On the Corner sem hafa keypt kvikmyndaréttinn á bókum hans og vinna nú að gerð framhaldsþátta. „Þeir sögðu að það væri mjög góður gangur í þessu ferli. Þeir eru að vinna í því núna að finna handristhöfund. Þeir eru búnir að sigta út einhvern hóp sem þeir eru að velja hinn eina rétta úr,“ segir Ragnar. On the Corner er ungt framleiðslufyrirtæki, ef til vill þekktast fyrir að hafa unnið til Óskarsverðlauna fyrir heimildarmynd um Amy Winehouse.

Ragnar segir að framleiðendurnir ætli að skoða þann möguleika að taka þættina upp á Íslandi, en handritshöfundurinn verði líklegast ekki íslenskur. „Ég veit ekki til þess að þeir séu að skoða íslensk nöfn.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×