Innlent

Ármanni finnst augljóst að stjórnin verði kölluð Kópavogsstjórnin

Atli Ísleifsson skrifar
Ármann Kr. Ólafsson
Ármann Kr. Ólafsson Vísir/Anton
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segir það liggja í augum uppi að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar verði kölluð Kópavogsstjórnin.

Ný ríkisstjórn verður kynnt til sögunnar í Gerðarsafni í Kópavogi klukkan 14:30.

Ármann kveðst ekki hafa komið að þeirri ákvörðun hvar ný ríkisstjórn yrði kynnt til sögunnar. „Ég frétti af því að það væri vilji manna að kynna ríkisstjórnina hérna en að öðru leyti hef ég ekki komið að því. Ég frétti að samband hafi verið haft við forstöðusafns Gerðasafns, Kristínu Dagmar [Jóhannesdóttur].

Mér finnst þetta ánægjulegt að það skuli vera tilkynnt um nýja ríkisstjórn hérna í Kópavogi í þessu fallega listasafni. Mér finnst augljóst að þetta verði kallað Kópavogsstjórnin.“

Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð mynda saman meirihluta í Kópavogi og segir Ármann staðsetninguna líklegast vera skírskotun í það.

„Það samstarf hefur gengið vel og hér ér góðu andi. Óttarr Proppé og Bjarni Benediktsson eru svo báðir þingmenn kjördæmisins. Svo er Theodóra [S. Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar] bæjarfulltrúi hér. Þetta hefur því margar tilvísanir og skírskotanir,“ segir Ármann.

Fráfarandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var kynnt í Héraðsskólanum á Laugarvatni þann 22. maí 2013.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×