Tónlist

Árlegur blúsdagur Blúsfélags Reykjavíkur

mynd/fésbókarsíða Blúsfélagsins.
Í dag verður blúsað um allan Skólavörðustíginn, á árlegum blúsdegi Blúsfélags Reykjavíkur. Dagurinn markar upphaf Blúshátíðar í Reykjavík sem stendur fyrir þrennum stórtónleikum í dymbilvikunni.

Fyrstu tónar dagsins verða slegnir ofarlega á Skólavörðustígnum um klukkan hálftvö og klukkan tvö verða tónleikar við verslun Eggerts feldskera þar sem heiðursfélagi Blúsfélagsins árið 2014 verður kynntur.

Fjöldi tónlistarmanna mun birtast víðs vegar um Skólavörðustíginn fram eftir degi og félagar úr Krúserklúbbnum sýna gestum og gangandi stórglæsilega eðalvagna. Boðið verður upp á grillaðar pylsur og beikon við verslun Ófeigs gullsmiðs á Skólavörðustíg 5.

Blúsdeginum lýkur svo með tónleikum í Borgarbókasafninu í Tryggvagötu klukkan 16, en í tilefni Blúshátíðar er safnið með sérstaka kynningu á blúsdiskum, bæði tónlistar- og mynddiskum, bókum um blústónlistarmenn og sögu tónlistarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×