Viðskipti innlent

Arion seldi fyrir 6,7 milljarða króna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Orri Hauksson er forstjóri Símans.
Orri Hauksson er forstjóri Símans.
Tæplega 5.000 fjárfestar óskuðu eftir kaupum á hlutabréfum Arion banka í Símanum fyrir samtals um 33 milljarða króna og er niðurstaða bankans að selja um 4.600 þeirra samtals 21% hlut fyrir um 6,7 milljarða króna. Vegið meðalgengi í þeim viðskiptum er 3,33 krónur á hlut og er markaðsvirði alls hlutafjár í Símanum um 32 milljarðar króna miðað við þá niðurstöðu útboðsins.

Fimm prósent hlutafjár verða seld á genginu 3,1 krónur á hlut í tilboðsbók A (þar sem mögulegt verðbil var 2,7-3,1) og 16% seld á genginu 3,4 krónur á hlut í tilboðsbók B (þar sem lágmarksgengi var 2,7). Fjárfestar í tilboðsbók A fá úthlutað að hámarki um 340 þúsund krónum að kaupverði og verða lægri áskriftir ekki skertar. Áskriftir sem bárust á verði yfir genginu 3,4 krónur á hlut í tilboðsbók B verða óskertar en áskriftir sem bárust á því gengi verða skornar niður hlutfallslega og nemur heildarskerðing þeirra um 300 milljónum króna.

Fjárfestum verða sendar upplýsingar um úthlutun ásamt greiðslufyrirmælum eftir að Nasdaq Iceland hefur staðfest að hlutir í Símanum hf. verði teknir til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. 

„Skráning Símans á Aðalmarkað Kauphallarinnar er mikilvægt skref fyrir félagið, starfsfólk og hluthafa, en ekki síður viðskiptavini sem eiga sinn þátt í því hvernig fyrirtækið þróast á hörðum samkeppnismarkaði. Við hjá Símanum hlökkum til að takast á við framtíðina í skráðu félagi og bjóðum nýja hluthafa hjartanlega velkomna í hópinn,“ er haft eftir Orra Haukssyni, forstjóra Símans, í tilkynningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×