Viðskipti innlent

Arion seldi fimmtungshlut í Eik

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Borgartún í Reykjavík. Eik og Landfestar eiga atvinnuhúsnæði víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu.
Borgartún í Reykjavík. Eik og Landfestar eiga atvinnuhúsnæði víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu. Fréttablaðið/GVA
Arion banki hefur þegar selt umtalsverðan part þess eignarhlutar í fasteignafélaginu Eik sem kom í hlut bankans við kaup Eikar á Landfestum, sem voru í eigu bankans. Samkeppniseftirlitið samþykkti kaupin í lok júní.

Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka hafa 20 prósent af eignarhlut bankans verið seld til ýmissa fjárfesta. Eftir viðskiptin nemur eignarhlutur bankans í Eik 24 prósentum. Bankinn tekur ekki þátt í hlutafjáraukningu sem fyrir dyrum er hjá félaginu og verður eftir hana með um 20 prósenta eign í félaginu.

Eignina sem eftir stendur stefnir Arion banki á að losa eftir skráningu Eikar á hlutabréfamarkað og mun sú sala ráðast af markaðsaðstæðum hverju sinni samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Trúnaðarákvæði eru í viðskiptunum og tjáir bankinn sig því hvorki um kaupendur né söluverð. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er söluandvirði hlutar Arion banka nálægt 2,5 milljörðum króna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×