Viðskipti innlent

Arion banki hættir við hækkanir

Stefán Árni Pálsson skrifar
Í verðskrá bankans voru boðaðar verðhækkanir á gjaldkeraþjónustu sem áttu að taka gildi 1. mars.
Í verðskrá bankans voru boðaðar verðhækkanir á gjaldkeraþjónustu sem áttu að taka gildi 1. mars. vísir/pjetur
Arion banki hefur ákveðið að hætta við fyrirhugaðar hækkanir á gjaldskrá bankans en þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu bankans.

Þar segir að bankanum hafi borist margar ábendingar frá viðskiptavinum sínum undanfarnar vikur í tengslum við verðskrá bankans.

Sjá einnig: Hvað er bankinn þinn að rukka þig um mikið og fyrir hvað?

„Við höfum hlustað á þær ábendingar og ákveðið að hækka ekki verð á þjónustu við okkar viðskiptavini út þetta ár. Við verðum þó að setja þann fyrirvara að ytri áhrifaþættir, eins og t.d. breytingar á skatti, gætu leitt til verðbreytinga.“

Í verðskrá bankans voru boðaðar verðhækkanir á gjaldkeraþjónustu sem áttu að taka gildi 1. mars en núna hefur verið ákveðið að falla frá þeim hækkunum.

Sjá einnig: Gagnrýni á ógagnsæi og óhóflega gjaldtöku ekki réttmæt

„Við munum hins vegar ekki falla frá nýju afgreiðslugjaldi sem snýr fyrst og fremst að viðskiptavinum annarra banka og mun skila sér í betri bankaþjónustu við viðskiptavini okkar. Þetta er gjald vegna innborgana reiðufjár og úttekta reiðufjár af reikningum í öðrum bönkum. Við viljum benda sérstaklega á að þeir sem eru 67 ára og eldri, eða yngri en 18 ára, greiða ekki fyrir almenna gjaldkeraþjónustu í útibúum okkar og það sama mun gilda um þetta gjald.“

Sjá einnig: Tilkynningagjöld bankanna: „Er þetta banki eða glæpafélag?“

Tilkynnt var á dögunum að hagnaður bankanna þriggja á liðnu ári hefði numið 81 milljarði króna. Margir hafa gagnrýnt þjónustugjöld bankanna og vexti þeirra harðlega í ljósi hins mikla hagnaðar. Forsætisráðherra hefur meðal annars sagt ótækt að almenningur njóti ekki betri kjara í ljósoi hagnaðar viðskiptabankanna.


Tengdar fréttir

80 milljarðar í samanlagðan hagnað

Samanlagður hagnaður Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankans nam 81 milljarði króna á síðasta ári. Hagnaður Landsbankans var mestur eða 29,7 milljarðar króna. Hagnaður Arion banka var 28,6 milljarðar og hagnaður Íslandsbanka 22,8.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×