Handbolti

Árið 2017 fer ekki vel af stað hjá Mosfellingum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Árni Bragi Eyjólfsson skoraði átta mörk í gær en það dugði ekki á móti Val.
Árni Bragi Eyjólfsson skoraði átta mörk í gær en það dugði ekki á móti Val. Vísir/Anton
Lið Aftureldingar í Olís-deild karla í handbolta kemur ekki vel undan HM-fríinu. Mosfellingar töpuðu á móti Val á heimavelli í gær og hafa ekki unnið deildarleik á nýju ári.

Afturelding hefur nú spilað þrjá deildarleiki á árinu 2017 og aðeins fengið í þeim eitt stig af sex mögulegum. Tveir af þessum leikjum hafa verið í Íþróttamiðstöðinni Varmá í Mosfellsbæ.

Afturelding á nú á hættu að missa toppsætið til Hauka á morgun en Haukarnir fá þá Selfyssinga í heimsókn á Ásvelli. Haukar hafa unnið upp forskotið hægt og rólega og vantar nú bara eitt stig til að ná Mosfellingum á toppnum.

Aðeins eitt lið hefur fengið færri stig á árinu 2017 en Afturelding en Framarar eru enn stigalausir á árinu. Safamýrarpiltar geta reyndar bætt úr því á móti ÍBV á laugardaginn þegar þeir spila sinn leik í 19. umferðinni.

Afturelding vann átta af fyrstu níu leikjum sínum í deildinni og tapaði aðeins tveimur deildarleikjum frá 15. september til 15. desember eða í þrjá mánuði. Liðið er nú búið að tapa jafnmörgum leikjum á síðustu þrettán dögum.

Þetta er jafnframt í fyrsta sinn á þessu tímabili sem Mosfellingar leik þrjá deildarleiki í röð án þess að vinna.

Stig liða í Olís-deild karla á árinu 2017:

FH 4 stig (2 leikir)

Stjarnan 4 stig (2 leikir)

ÍBV 3 stig (2 leikir)

Valur 3 stig (3 leikir)

Haukar 2 stig (2 leikir)

Akureyri 2 stig (2 leikir)

Grótta  2 stig (2 leikir)

Selfoss 1 stig (2 leikir)

Afturelding 1 stig (3 leikir)

Fram 0 stig (2 leikir)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×