Skoðun

Árið 1952 var að hringja …

Brynhildur S. Björnsdóttir skrifar
Undanfarnar vikur hef ég nokkrum sinnum klórað mér í hausnum og flett upp dagatalinu. Miðað við lesnar fréttir hefði ég nefnilega getað svarið að ég væri stödd á allt annarri öld. Þar sem konur voru aðallega í því að ákveða hvað væri í matinn og mönnunum einum treystandi fyrir mikilvæga stöffinu.

Talsmaður nýstofnaðs Félags kvenna í vísindum lýsti því m.a. yfir í vikunni að þó konur hafi verið í meirihluta á háskólastigi síðan á 9. áratugnum væru þær enn nær ósýnilegar í vísindaheiminum, hljóti síður styrki til rannsókna og aðeins 26% prófessora séu konur.

Í vikufréttum kom einnig fram að konur stýri einungis um fimmtungi allra fyrirtækja landsins og sitji í fjórðungi stjórnarsæta. Í efstu lögum fjármálageirans eru þær nánast jafn sjaldséðar og hvítir hrafnar. Fyrir hverja níu karla sem stjórna peningum á Íslandi er einungis ein kona. Já. Ein.

Fjármálageirinn virðist ekki hafa fengið „memóið“ um að allar rannsóknir sýndu fram á betri árangur með fleiri konum í stjórnunarstöðum. Eins virðist það hafa gleymst að fjölmargar úttektir og rannsóknir bendi til þess að fjármálageirinn hefði að öllum líkindum ekki hrunið jafn illilega – ef fleiri konur hefðu setið í stjórnunarstöðum. Ráðandi gildi í fjármálageiranum hafa nefnilega alla tíð litast af því að honum er nánast alfarið stjórnað af y-litningum.

Ég get ekki annað en spurt mig hvort lokuð sala á ríkiseign (hæjjj Landsbankinn) hefði t.a.m. átt sér stað í lokuðu herbergi kvenna. Eða hvort þær hefðu ekki sett spurningar­merki við að samþykkja verðhugmynd sem kæmi frá kaupandanum sjálfum. Nú eða ákveðið sín á milli að skipta með sér 3,3 milljörðum í bónusgreiðslur (hæjjj strákar í Straumi).

Gildi á borð við áhættusækni, græðgi, frændhygli og yfirgang hafa verið allsráðandi. Á meðan gildi á borð við varfærni, ábyrgð og viljann til að líta í eigin barm hafa algerlega verið víkjandi. Enda ekki mikill „pungur“ í svoleiðis gildum. Seisei nei.

Hættum þessu rugli og réttum stelpunum keflið í smá stund. Fjármálakerfið þarf á afréttara að halda.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×