Fótbolti

Ari Freyr: Þetta var hálf aulalegt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ari Freyr reynir hér fyrirgjöf í seinni hálfleik.
Ari Freyr reynir hér fyrirgjöf í seinni hálfleik. Vísir/anton brink
Ari Freyr Skúlason, vinstri bakvörður Íslands, var svekktur með niðurstöðuna gegn Lettum en íslensku strákarnir töpuðu niður tveggja marka forystu og þurftu að sætta sig við jafntefli.

"Þetta var hálf aulalegt verður maður að segja. Þeir fengu of margar skyndisóknir. Við áttum að klára leikinn eftir þennan fína fyrri hálfleik," sagði Ari.

"Ég held að slaka á sé ekki rétta orðið. Þeir fengu bara alltaf margar skyndisóknir á móti okkur og þetta gekk ekki eins og við ætluðum okkur. Við hefðum getað skorað tvö mörk í viðbót.

"Við áttum bara að klára þetta og geta svo legið til baka og notið þess að vinna þennan leik."

Ari segir að íslenska liðið verði að læra af mistökunum sem það gerði í þessum leik.

"Við vildum enda þetta á góðum nótum hér heima, með sigurleik fyrir fólkið, en þetta er mjög svekkjandi," sagði Ari og bætti við að Lettland og Kasakstan, sem Ísland gerði markalaust jafntefli við í síðustu umferð, séu sýnd veiði en ekki gefin.

"Mér finnst Kasakar og Lettar vera mjög góðir varnarlega séð og mjög erfitt að brjóta þá niður. Bæði þessi lið eru mjög öguð og þetta eru ekkert léttir leikir," sagði Ari að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×