Fótbolti

Argentína og Brasilía töpuðu bæði | Agüero meiddist

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Argentína og Brasilía töpuðu bæði leikjum sínum er undankeppni HM 2018 hófst í Suður-Ameríku í nótt.

Allar tíu þjóðir Suður-Ameríku eru saman í einum riðli í undankeppninni og komast fjögur efstu liðin beint á HM í Rússlandi. Liðið í fimmta sæti fer svo í umspil gegn þjóð frá annarri álfu.

Brasilía tapaði fyrir Suður-Ameríkumeisturum Síle á útivelli, 2-0. Eduardo Vargas og Alexis Sanchez skoruðu mörk heimamanna, bæði í seinni hálfleik.

Síle var sterkari aðilinn í leiknum en áður en Vargas kom liðinu yfir höfðu Sanchez og Maauricio Isla báðir átt stnagarskot.

Brasilía ógnaði helst með skyndisóknum í leiknum en þeir náðu þó að skapa sér fá færi. Neymar var ekki með vegna leikbanns og nýtti Síle fjarveru hans til að vinna í Brasilíu í fyrsta sinn síðan 2000.

Argentína tapaði svo fyrir Ekvador á heimavelli, 2-0. Erazo og Caicedo skoruðu mörk gestanna.

Lionel Messi var ekki með vegna meiðsla og Sergio Agüero var borinn af velli eftir 20 mínútna leik með tárin í augunum. Hann meiddist aftan í læri og er ekki ljóst hversu lengi hann verður frá.

Agüero átti samt besta færi leiksins fyrir Argentínu sem sótti lítið án sinna bestu sóknarmanna. Þetta var fyrsti sigur Ekvador í undankeppni HM í Argentínu.

Úrúgvæ vann svo góðan sigur á Bólivíu á útivelli, 2-0, sem og Paragvæ sem sótti þrjú stig til Venesúela með 1-0 sigri. Kólmbía hafði svo betur gegn Perú, 2-0, á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×