Fótbolti

Argentína hefndi fyrir tapið í úrslitaleiknum í kvöld

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Leikmenn Argentínu fagna marki í leiknum í kvöld.
Leikmenn Argentínu fagna marki í leiknum í kvöld. Vísir/getty
Argentína hefndi fyrir tapið í úrslitaleik Heimsmeistaramótsins með 4-2 sigri á Þýskalandi í Þýskalandi í kvöld. Argentína komst í 4-0 snemma í seinni hálfleik en leikmenn þýska liðsins náðu að klóra í bakkann undir lok leiksins.

Þrátt fyrir að vera án Lionel Messi var sigurnn sannfærandi í kvöld og komst argentínska liðið snemma í 4-0 áður en Andre Schurrle og Mario Götze minnkuðu muninn fyrir Þýskaland.

Wayne Rooney skoraði sigurmark Englands gegn Noregi í fyrsta leik sínum sem fyrirliði liðsins. Rooney sem tók við fyrirliðabandinu af Steven Gerrard á dögunum skoraði eina mark leiksins um miðbik seinni hálfleiks af vítapunktinum.

Tyrkland hitaði upp fyrir leikinn gegn Íslandi með því að leggja nágranna okkar, Danmörku, að velli á Parken. Daniel Agger kom heimamönnum yfir í fyrri hálfleik af vítapunktinum en tyrknesku leikmennirnir náðu að snúa taflinu sér í hag í seinni hálfleik og skoraði Ozan Tufan sigurmarkið í uppbótartíma.

Tékkaland sem er einnig með Íslandi í riðli í undankeppni Evrópumótsins tapaði 0-1 fyrir Bandaríkjunum á heimavelli. Aron Jóhannsson var ekki í leikmannahóp Bandaríkjanna vegna meiðsla en það kom ekki að sök. Alejandro Bedoya skoraði sigurmark leiksins undir lok fyrri hálfleiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×