Skoðun

Áréttað um „bústaðarmálið“

Haraldur Flosi Tryggvason skrifar
Fréttablaðið sýnir svokölluðum forstjórabústað Orkuveitu Reykjavíkur við Þingvallavatn umtalsverðan áhuga og gott er nú það. Umfjöllun blaðsins og Stöðvar 2 varð til þess að varpa ljósi á lausa enda, flýta fyrir því að þeir yrðu nýttir og tilheyrandi verkferlar skýrðir til frambúðar.

Ekki geri ég lítið úr „bústaðarmálinu“ en læt duga að segja að stjórn og stjórnendur OR hafi verið uppteknari við að velta við margfalt stærri steinum í starfsemi fyrirtækisins undanfarin ár, án þess að það sé afsökun fyrir einu né neinu í þessu sambandi.

Ástæðan fyrir athugasemd minni hér er sú að mér þykir Fréttablaðið vega glannalega að æru forstjóra OR í forsíðuuppslætti sínum 24. september: „Níu milljónum eytt í sumarhús forstjórans.“ Þarna er ýjað að spillingu í efnislega rangri og ósmekklegri fyrirsögn. Ef fullyrðingin væri á hinn bóginn rétt hefðu fleiri fjölmiðlar og helst allir með tölu haft ríka ástæðu til að fara strax í málið líka!

Þjóðin öll fylgdist með því þegar ný stjórn OR lagði árið 2010 út í umfangsmeiri og harkalegri björgunaraðgerðir en dæmi eru trúlega um áður í opinberum rekstri á Íslandi. Árangurinn sýnir sig svo eftir er tekið.

Ákvörðun stjórnar OR um að selja tíu sumarbústaðalóðir við Þingvallavatn var liður í þessum aðgerðum. Þegar betur var að gáð þótti ráðlegra að selja ekki lóðirnar og framlengja ekki heldur leigusamning um þær. Í staðinn verður samið um að hækka lóðarleigu verulega þar til sumarhúsin víkja alveg og OR mun gæta sanngirni varðandi tímafresti í því sambandi.

Ekki kom til greina að selja bústað OR á svæðinu, enda stendur hann nánast ofan á vatnsbóli sem OR nýtir á svæðinu. Nú hefur verið ákveðið að rífa bústaðinn og er saga hans þá öll.

Gott er að vera vitur eftir á og segja að best hefði verið að ákveða til dæmis strax árið 2012 að láta húsið víkja og spara þá um leið 1,3 milljónir króna sem varið var til klæðningar í því skyni að verja það skemmdum. Það var ekki gert. Betra er samt að taka rétta ákvörðun seint en alls ekki og hún liggur nú fyrir.




Skoðun

Sjá meira


×