Íslenski boltinn

Arends og Insa sendir heim

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Keflavík er búið að senda hollenska markvörðinn Richard Arends og spænska miðvörðinn Kiko Insa aftur til síns heima. Þá hefur Indriði Áki Þorláksson einnig yfirgefið Keflavík.

Þetta staðfesti Haukur Ingi Guðnason, annar þjálfara Keflavíkur, í samtali við Hjört Hjartarson í útvarpsþættinum Akraborginni í dag.

Arends og Insa hafa ekki spilað vel í sumar en Keflavíkurliðið hefur fengið á sig 31 mark í 12 deildarleikjum, eða 2,58 mörk að meðaltali í leik. Keflavík er í 12. og neðsta sæti Pepsi-deildarinnar með einungis fimm stig.

Haukur Ingi sagði einnig að Keflvíkingar myndu setja traust sitt á hinn unga Sindra Kristinn Ólafsson, sem er fæddur árið 1997, en hann mun verja mark Keflavíkur það sem eftir lifir móts.

Keflvíkingar hafa bætt við sig fjórum leikmönnum í leikmannaglugganum; framherjunum Chukwudi Chijindu og Martin Hummervoll, miðjumanninum Farid Zato og miðverðinum Paul Junior Bignot sem kemur til með að fylla skarð Insa.

Hummervoll og Bignot gætu leikið sinn fyrsta leik fyrir Keflavík í kvöld þegar liðið tekur á móti FH. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.

Viðtalið við Hauk Inga má hlusta á í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×